20. nóvember - 27. nóvember - Tbl 47
Frumsýnir stuttmynd á netinu
Pétur Guðjónsson athafnamaður hefur lengi verið með stuttmynd í bígerð eftir sögu sem hann skrifaði árið 2010. Myndin nefnist Hvar er draumurinn? og fjallar um þann nöturlega heim sem unglingar í heimi fíkniefna lifa í. Eftir fimm ára meðgöngu er loksins komið að því að sýna stuttmyndina.
„Þetta verkefni, sem hefur farið í allar áttir, hefur verið skrautlegt en nú verður hún sýnd eftir að hafa farið í gegnum þrjá kvikmyndaráðgjafa og nokkra klippara,“ segir Pétur. Hann segist hafa stefnt að því að sýna myndina þann 8. apríl í Borgarbíó en vegna ástandsins í þjóðfélaginu verður ekkert úr því, enda öll bíóhús lokuð vegna kórónuveirunnar. „Í ljósi þess ákvað ég að sýna hana bara á netinu og það á nýjum vef, www.draumaleikhúsid.is, þann 8. apríl. Síðan mun Borgarbíó sýna hana eitthvað fyrir okkur, bara svo hún komist á hvíta tjaldið,“ segir Pétur og bætir við: „Það má segja að hópurinn sem gaf alla vinnu ætli nú að gefa þjóðinni myndina. Ekki síst til þess að hún verði notuð í forvarnarskyni.“
Fékk innblástur eftir störf á Laugalandi
Innblásturinn af sögunni var atvik sem gerðist er Pétur starfaði á meðferðarheimilinu Laugalandi í Eyjafjarðarsveit fyrir nokkrum árum. „Þá varð ég vitni af ýmsu og kynnti mér þennan heim talsvert vel. Svo fékk ég stundum fréttir af stúlkunum eftir að þær útskrifuðust frá Laugalandi og að þeim gengi vel. Það er mjög gleðilegt að heyra svoleiðis fréttir. En því miður var það ekki alltaf raunin. Sumar fréttir var erfitt að fá. Það var ung stúlka sem lést eftir að hafa tekið of stóran skammt af fíkniefnum og það hafði mikil áhrif á mig. Þá læddist þessi hugsun að mér að partýin geta verið ansi heillandi þegar fólk er ungt og áhyggjulaust. Fíkniefnaheimurinn spennandi, fullt af peningum, athygli og þess háttar. En yfirleitt enda þó partýin illa. Það er útgangspunkturinn í myndinni,“ segir Pétur.
Vilja vekja fólk til umhugsunar
Handritið er skrifað af Pétri, Jokku G.Birnudóttur og Úlfhildi Örnólfsdóttur en sagan fjallar í stuttu máli um líf nokkurra unglinga sem leiðast út í heim fíkniefna. Tökur á myndinni stóðu yfir í október 2015 og tóku alls 14 daga. Pétur segist hafa fengið margt gott fólk í lið með mér varðandi handritaskrif, tæknivinnu og fleira. „Ég þvældist með myndina fram og til baka, var með þrjá kvikmyndaframleiðendur í takinu til að ráðleggja, Baldvin Z, Gunnar Björn og Kidda K. en sagan gekk frekar illa upp þegar hún var komin á klippiborðið. Það var ekki fyrr en Ragnar Bollason, nýlega útskrifaður úr kvikmyndaskólanum, kom og lagðist yfir þetta að lokaútkoman leit dagsins ljós.“
Pétur bætir við að það beri mörgum að þakka og án þessa góða fólks hefði myndin aldrei geta orðið að veruleika. „Við byrjuðum tveir, ég og Helgi Steinar Halldórsson, svo bættist Þórhallur Jónsson í Pedró við og síðan stækkaði hópurinn og endaði í alls 40 manns sem kemur að myndinni.“ Pétur segir að í upphafi hafi hann og Helgi Steinar stefnt að því að gera mynd sem yrði m.a. notuð í forvarnarskyni. „Með þessari mynd viljum við vekja fólk til umhugsunar og ekki bara unglinga heldur foreldrana líka.,“ segir Pétur Guðjónsson.