Frost hannaði og setti upp kælibúnað í laxavinnslu Drimlu í Bolungarvík

Guðmundur H. Hannesson, framkvæmdastjóri Kælismiðjunnar Frosts, afhendir Stein Ove Tveiten, framkvæm…
Guðmundur H. Hannesson, framkvæmdastjóri Kælismiðjunnar Frosts, afhendir Stein Ove Tveiten, framkvæmdastjóra Arctic Fish, gjöf frá Frosti í tilefni af formlegri opnun Drimlu laxavinnslu.

„Þetta var í senn mjög skemmtilegt og krefjandi verkefni,“ segir Bjartmar E. Harðarson, verkefnastjóri hjá Kælismiðjunni Frosti, um kælibúnaðinn sem fyrirtækið hannaði og setti upp í Drimlu, laxavinnslu Arctic Fish í Bolungarvík. Drimla var formlega tekin í notkun 25. nóvember sl. en vinnsla hófst þar sl. sumar.

Verksamningar milli Frost og Arctic Fish voru undirritaðir á Íslensku sjávarútvegssýningunni 2022 í Kópavogi. Hönnun hófst síðla sumars 2022 og síðan hófst forsmíði búnaðarins á verkstæði Frosts. Í febrúar á þessu ári hófust starfsmenn Frosts síðan handa í Bolungarvík. Verkinu var að mestu lokið sl. sumar en lokafrágangur og fínstilling kerfsins var núna á haustdögum.

„Þetta verk fól í sér heildarlausn sem Frost hannaði. Það fól annars vegar í sér ammoníak/glykol sem er notað til kælingar á sjó. Sjórinn er notaður til þess að undirkæla laxinn. Hins vegar er það ísverksmiðja til framleiðslu á skelís og ísafgreiðslukerfi sem notað er til þess að ísa afurðir verksmiðjunnar fyrir flutning. Tvær kælipressur eru á staðnum sem vinna á sitt hvoru kerfinu en hafa þó sameiginlega háþrýstihlið. Kerfið er tilbúið til endurnýtingar á varma sem nýttur verður til upphitunar á verksmiðjunni í framtíðinni,“ segir Bjartmar.

Gólfflötur þessarar nýju laxavinnslu Arctic Fish á hafnarsvæðinu í Bolungarvík er um 5000 fermetrar og er framleiðslugetan þar um 15 tonn af laxi á klukkustund.

Nýjast