27. nóvember - 4. desember - Tbl 48
Frístundastyrkur fyrir árið 2023 hækkar um 5.000 kr.
Við gerð fjárhagsáætlunar fyrir árið 2023 samþykktu fræðslu- og lýðheilsuráð og bæjarstjórn að hækka frístundastyrk til niðurgreiðslu á æfinga- og þátttökugjöldum barna og unglinga á Akureyri. Hefur nú verið ákveðið að hækka styrkinn úr 40.000 kr. í 45.000 kr. frá og með 1. janúar 2023. Greint er frá þessu á vef Akureyrarbæjar.
Frá árinu 2006 hefur Akureyrarbær veitt styrk til allra barna og unglinga á Akureyri til niðurgreiðslu þátttökugjalda hjá íþrótta-, tómstunda- og æskulýðsfélögum á Akureyri. Styrkurinn tekur gildi árið sem barnið verður 6 ára og gildir út árið sem unglingurinn verður 17 ára.
Til að nota frístundastyrkinn skal fara inn á heimasíðu þess íþrótta-, tómstunda- og/eða æskulýðsfélags þar sem skrá á barn. Þar er hlekkur inn á skráningarsíðu (Sportabler) þar sem foreldrar skrá iðkendur. Í skráningar- og greiðsluferlinu geta foreldrar valið um að nota frístundastyrkinn frá Akureyrarbæ.
Íþrótta-, tómstunda- og æskulýðsfélögin veita aðstoð og upplýsingar um skráningu, greiðslu og notkun frístundastyrks hjá hverju félagi fyrir sig.
• Árið 2023 gildir styrkurinn fyrir börn fædd árið 2006 til og með 2017
• Frístundastyrkurinn gildir frá 1. janúar til 31. desember ár hvert