Freyvangsleikhúsið Bangsímon og Gríslingur í jólasveinaleit
Nýtt íslensk barnaleikrit, Bangsímon og Gríslingur í jólasveinaleit verður frumflutt hjá Freyvangsleikhúsinu um aðra helgi, 17. nóvember næskomandi og verða sýningar allar helgar fram að jólum.
Verkið er eftir Jóhönnu s. Ingólfsdóttur og byggir á ástsælum persónum samnefndum eftir A.A. Milne sem Disney gerði ódauðlegar. Samanvið blandast svo sígildar íslenskar verur sem allir þekkja. Í verkinu segir frá Bangsímon og Gríslingi sem komnir eru til Íslands í leit á jólasveinum sem þeir höfðu frétt að væru hvorki fleiri né færri en 13 talsins. Sagan segir frá leit þeirra sem gengur upp og ofan, en ýmsar verur hitta þeirra á ferð sinni líkt og gera má ráð fyrir á íslensku fjalli. Þeir halda ótrauðir áfram þó ýmislegt gerist á leiðinni og halda í trúna á að þeim takist ætlunarverk sitt, hafa óbilandi trú á sjálfum sér og hvor öðrum.
Eiríkur Bóasson semur tónlist, sem er létt og skemmtilegt, textar eru ýmist frumsamdir eða með vísum Jóhannesar úr Kötlum. Jóhanna S. Ingófsdóttir leikstýrir og er það í annað sinn sem hún tekst á við leikstjórn hjá Freyvangsleikhúsinu, en hún leikstýrði Karíus og Baktus fyrir jólin í fyrra.
Verkið er rúmlega klukkutíma að lengd með hléi og því tilvalið fyrir yngstu kynslóðina.