Fréttatilkynning frá Cruise Iceland 14. desember 2022- Að gefnu tilefni vegna ummæla fráfarandi ferðamálastjóra

Mynd  Vikublaðið
Mynd Vikublaðið

Vegna fréttar á vefmiðlinum Turisti.is þann 7. desember sl., þar sem fráfarandi ferðamálastjóri, Skarphéðinn Berg Steinarsson, gagnrýndi mikinn vöxt í komum skemmtiferðaskipa, vill Cruise Iceland koma eftirfarandi staðreyndum og vangaveltum á framfæri:

  • • Hafnarstjórnir, og eftir atvikum sveitarstjórnir hverrar hafnar, ákveða hvort að hömlur séu settar á komur skemmtiferðaskipa en ekki hafnarstjórar líkt og fráfarandi ferðamálastjóri vill meina. Það er síðan hafnarstjóra að framfylgja stefnumarkandi ákvörðunum.

 

  • • Þrátt fyrir þá umtalsverðu aukningu sem er fyrirsjáanleg í komum skemmtiferðaskipa til Íslands eru farþegar þeirra innan við 10% af heildarfjölda erlendra ferðamanna sem er áætlað að komi til landsins á næsta ári.

 

  • • Kolefnisspor Íslands er ekki metið út frá komum skemmtiferðaskipa hingað til lands enda eru skipin ekki skráð á Íslandi.

 

  • • Faxaflóahafnir hafa riðið á vaðið með innleiðingu öflugasta umhverfiseinkunnarkerfis sem völ er á fyrir skemmtiferðaskip, með ívilnunum eða álögum, allt eftir því hvaða áhrif skipin hafa á umhverfið. Kerfið nefnist Environmental Port Index og var fyrst tekið upp í Noregi. Markmiðið er að koma á fjárhagslegu hvatakerfi til reksturs umhverfisvænni skemmtiferðaskipa og draga þannig úr ávinningi af því að koma með meira mengandi skip til þeirra hafna sem styðjast við EPI. Akureyrarhöfn ásamt fleiri höfnum stefna á að taka upp EPI árið 2024.

 

  • • Landtengingar skipa eru annar mikilvægur þáttur í sjálfbærari rekstri skemmtiferðaskipa. Hafnarfjarðarhöfn tók í notkun landtengingu fyrir minni skemmtiferðaskip (leiðangursskip) sl. sumar og sambærileg tenging er langt komin á Akureyri. Faxaflóahafnir munu taka í notkun landtengingu fyrir leiðangursskip í Gömlu höfninni næsta vor og róa öllum árum að því að hægt verði að tengja stærri skemmtiferðaskip 2026.

 

  • • Áætlun fráfarandi ferðamálastjóra um heildartekjur af skemmtiferðaskipum lýsir skorti á upplýsingaöflun og vanþekkingu á uppbyggingu þessa hluta ferðaþjónustunnar. Tölulegar forsendur sem er stuðst við í viðtalinu við hann á Túrista.is eru í engu samræmi við raunveruleikann. Könnun á fjárhagslegum áhrifum af komum skemmtiferðaskipa sem Cruise Iceland fól bresku fyrirtækinu GP Wild International og Business Research & Economics Advisors að gera árið 2018 leiddi í ljós að komur skemmtiferðaskipa voru að skapa 920 heilsárs störf og þjóðhagslegur ávinningur væri 16,4 milljarðar króna. Ef tillit er tekið til þeirrar 13% aukningar milli áranna 2018 og 2022, má reikna með að komur skemmtiferðaskipa skili á þessu ári um 18,5 milljörðum króna í þjóðarbúið.

 

  • • Farþegum í farþegaskiptum hefur fjölgað mjög á allra síðustu árum og sýnir reynslan að þeir eru að skila umtalsverðum fjármunum í þjóðarbúið. Með farþegaskiptum er átt við að farþegar skemmtiferðaskipa hefja eða ljúka ferð sinni í höfn á Íslandi. Þeir fljúga til og frá landinu og dvelja einhverja daga í landi fyrir og eftir siglingu. Farþegar gista á betri hótelum borgarinnar, borða á veitingastöðum, leigja bílaleigubíla, fara í skoðunarferðir, heimsækja söfn og nýta sér margvíslega aðra afþreyingu. Þá skapa komur skemmtiferðaskipa í farþegaskiptum mun fleiri störf í landi. Það stefnir í að farþegar í farþegaskiptum verði hátt í 85 þúsund á árinu 2023, eða fjölgun upp á 60% milli ára. Þetta þýðir með öðrum orðum enn frekari virðisaukningu pr. farþega fyrir íslenskt hagkerfi.

 

Samkvæmt könnun frá Wonderfull Copenhagen, sem gerð var fyrir höfnina í Kaupmannahöfn, skilja farþegaskiptafarþegar ríflega þrisvar sinnum meira eftir sig í hagkerfinu en almennir skemmtiferðaskipafarþegar. Eyðsla farþegaskiptafarþega hér á landi hefur ekki verið rannsökuð sérstaklega en Cruise Iceland stefnir að því að láta gera slíka rannsókn sumarið 2023 og mun leita eftir samstarfi við Ferðamálastofu um slíkar rannsóknir.

 

  • • Ljóst er að stór hluti tekna margra hafna á landinu er tilkominn vegna skemmtiferðaskipa. Víða um land er verið að nota innviði sem voru til staðar og illa nýttir. Þessar auknu tekjur hafa gert það að verkum að uppbygging og viðhald hafna hefur verið mögulegt án þess að ríkisvaldið, sveitarfélög og skattgreiðendur þurfi að bera aukinn, beinan kostnað.

 

  • • Í mörg ár hefur verið gagnrýnt hversu illa gengur að dreifa ferðamönnum um landið. Skemmtiferðaskip eru vel til þess fallin að dreifa ferðamönnum um land allt. Fimmtán til tuttugu hafnir taka á móti skemmtiferðaskipum á ári hverju auk þess sem fjöldi ferðaþjónustufyrirtækja hafa verið stofnuð til að þjónusta þessa farþega. Fyrir tilstuðlan Cruise Iceland hefur verið þróað samræmt bókunarkerfi fyrir allar helstu hafnir sem taka á móti skemmtiferðaskipum á Íslandi. Notkun þessa bókunarkerfis stuðlar að aukinni dreifingu skemmtiferðaskipa um landið, sem aftur dregur úr álagi á einstaka hafnir landsins og nærsamfélög þeirra.

 

• Fráfarandi ferðamálastjóri nefnir mikilvægi fjölbreytileikans í ferðaþjónustu. Farþegar og gestir af skemmtiferðaskipum eru sannarlega hluti af þeim fjölbreytileika. Við hlökkum til samstarfs við Ferðamálastofu og vonum að nýr ferðamálastjóri, sem tekur við keflinu um áramót, eigi eftir að sjá mikilvægi þess að eiga jákvætt og uppbyggilegt samtal við Cruise Iceland og þróa ferðaþjónustuna áfram með þeim aðilum sem tengjast þessari tegund ferðamennsku til jafns við aðra. 

 Um Cruise Iceland

Cruise Iceland eru hagsmunasamtök íslenskra hafna, ferðaþjónustuaðila, umboðsmanna skipafélaga og annarra sem hafa hagsmuni af komum skemmtiferðaskipa til Íslands. Cruise Iceland hefur m.a það hlutverk að stuðla að sjálfbærum vexti greinarinnar með virðisaukningu fyrir alla hagsmunaaðila.

Stefnuáherslur Cruise Iceland eru meðal annars að:

o Stuðla að styrkingu innviða svo þeir séu í stakk búnir að taka á móti farþegum og skipum á sjálfbæran hátt.

o Tryggja að Ísland verði áfram eftirsóknarverður áfangastaður skemmtiferðaskipa.

o Bæta upplýsingagjöf til innlendra og erlendra hagsmunaaðila.

o Stuðla að því að Ísland verði áfram umhverfisvænn áfangastaður.

F.h. stjórnar Cruise Iceland

Pétur Ólafsson, formaður Cruise Iceland

Fréttatilkynning frá Cruise Iceland 14. desember 

Nýjast