Freistingin varð minkinum að bana

Árni Logi Sigurbjörnsson, meindýraeyðir með minkinn ólánssama. Mynd/epe
Árni Logi Sigurbjörnsson, meindýraeyðir með minkinn ólánssama. Mynd/epe

Sést hefur til minks í Skrúðgarðinum á Húsavík að undan förnu. Árni Logi  Sigurbjörnsson meindýraeyðir fékk tilkynningu um minkinn og setti fyrir hann gildrur í gær. Þegar Árni Logi vitjaði um gildrurnar í morgun fann hann dauða hvolplæðu.

„Ég notaði nýja rækju sem agn, það er það besta sem minkurinn fær og lyktin er svo sterk. Freistingin hefur orðið of sterk fyrir þessa,“ segir hann og lyftir upp dauðri læðunni. „Freistingin varð henni að falli."

Árni Logi segir jafnframt að það sé mikið af mink um þessar mundir út um allar koppa grundir og vill meina að eyðingu hans sé ekki nógu vel sinnt eftir að ríkið hætti að endurgreiða fyrir eyðinguna. Hann á von á að ná fleirum í gildrur sínar í Skrúðgarðinum. „Ég hef grun um að það séu fleiri hérna, þetta er paradís fyrir minkinn. Mikið af felustöðum og krökkt af fugli,“ segir Árni Logi áður en hann setur hræið í bíl sinn og ekur á brott.

Nýjast