Hvernig er samfélagið okkar?

Ásta F. Flosadóttir átti lokaorðið i blaðinu s.l. fimmtudag
Ásta F. Flosadóttir átti lokaorðið i blaðinu s.l. fimmtudag

Samfélag sem ekki getur orðið við lögvörðum rétti fatlaðra til þjónustu, sem getur umborið að veikt barn sé sótt inn á Landspítalann með lögregluvaldi og látið húka á Keflavíkurflugvelli meðan ríkisstjórn landsins rambar á barmi stjórnarslita, samfélag sem lætur nútíma þrælahald viðgangast gegnum starfsmannaleigur, samfélag þar sem andlega veikt fólk fær ekki aðstoð fyrr en það er of seint og saklaus líf glatast, samfélag sem telur það eðlilega umgengni að ofbeldismenn geti fengið að vera einir með börnum sínum, samfélag þar sem fjöldi karlmanna telur það sinn sjálfsagða rétt að geta keypti líkama kvenna, kvenna sem eru ýmist hraktar eða neyddar í vændi, fluttar til landsins eins og hver annar varningur til sölu og neyslu, kjötskrokkar.

Samfélag þar sem þeir ríku hagnast enn meira á stýrivöxtum og verðbólgu meðan sultarólin er hert og bilið breikkar,  samfélag sem leggur allt upp úr glansandi yfirborði meðan öfundin, niðurrifið og baknagið blómstrar undir, samfélag sem leyfir bakslag í framkomu gagnvart hinsegin fólki, þar sem ungum drengjum þykir sjálfsagt að veitast að fólki með annan húðlit með gelti og gjammi, urrandi eins og ótamdar skepnur.

Samfélag þar sem fólk getur legið dáið dögum saman heima hjá sér án þess að nokkur líti við.

Verðskuldar svona samfélag að hampa kristnum gildum? Kannski bara á hátíðis og tyllidögum? Hinir heilögu farísear, eru það við?

Er það furða að ungmennum okkar þyki nauðsynlegt að bera vopn til að verja sig?

Er það undarlegt að vanlíðan og kvíði þjaki börnin okkar og að fullorðnir vilji hafa sem mest og best aðgengi að áfengi til deyfingar?

Ætlum við að hafa samfélagið svona?

Nýjast