Framtíð lífvera á Íslandi í skugga loftslagshlýnunar
Kristinn Pétur Magnússon er prófessor við Auðlindadeild Háskólans á Akureyri. Rannsóknir hans snúa að erfðafræðirannsóknum á lífverum til að skilja þróun þeirra og aðlögun að umhverfinu.
KP er fæddur á Ísafirði 1957. Föðurættin er af Hornströndum og móðurættin úr Rangárvallasýslu. Eftir að hafa lokið BS prófi í líffræði 1983 við Háskóla Íslands tók KP þátt í Þingvallavatnsrannsóknum með áherslu á stofnerfðafræði bleikju. Hann lauk doktorsprófi 1998 við Karolinska Institutet í Stokkhólmi, Svíþjóð. Doktorsverkefnið fjallaði um sameindaerfðafræði krabbameina. Sama ár gekk KP til liðs við Íslenska erfðagreiningu og hóf að kortleggja erfðabreytileika Íslendinga sem tengjast augn-, hjarta- og æðasjúkdómum ásamt sykursýki. Síðan 2008 hefur KP starfað við Háskólann á Akureyri og sem sérfræðingur við Náttúrufræðistofnun Íslands á Akureyri. 2010 fékk hann framgang í stöðu prófessors.
Íslenska rjúpan mun hverfa
Umfangsmesta verkefni KP — eins og Kristinn Pétur er kallaður — þessa dagana er erfðamengjarannsókn á rjúpunni í samvinnu við vísindafólk í Svíþjóð og Bandaríkjunum. Verkefnið er styrkt af Rannís til þriggja ára.
Þá hefur hann verið að rannsaka og bera saman erfðaupplag fugla úr mismunandi stofnum rjúpunnar í Norður Ameríku, Grænlandi, Íslandi og Evrópu. Niðurstöður þeirrar rannsóknar voru notaðar til að spá fyrir um afdrif rjúpunnar í yfirvofandi loftslagsvá næstu áratuga. Einnig benda niðurstöðurnar til þess að íslenska rjúpan muni hverfa ef verstu spár loftslagshlýnunar verða að veruleika. Áhugavert er að stofnstærð fálka rís og hnígur í takt við stærð rjúpnastofnsins. Þess ber að geta að framtíð fálkans á Íslandi ræðst algjörlega af hvernig rjúpunni vegnar á næstu áratugum.
Fjaðrir sem lífssýni
Íslenski fálkastofninn er lítill, áætlaður 300-400 varppör, og er á válista sem tegund í yfirvofandi hættu. Dr. Ólafur K. Nielsen á Náttúrufræðistofnun Íslands hefur fylgst grannt með stofnstærð rjúpunnar og fálkans á Norðausturlandi og safnað felldum fálkafjöðrum óðalsfugla frá 1983 og af ungum frá árinu 2000. Fjaðrir eru lífsýni sem geyma erfðabreytileika hvers fugls og eru til vitnis um fjölskyldu- og stofngerð. KP notar fjaðrirnar til að greina fálka til að útskýra lífsögu hans og ábúðarsögu á óðulum.
Endurheimt birkiskóga
Þá hefur KP rannsakað erfðabreytileika birkisins á Íslandi sem hefur leitt í ljós að erfðafræðilegur munur sé á birkisskógum eftir landshlutum. Erfðafræðirannsóknir hans hafa einnig leitt í ljós að einn stærsti birkiskógur landsins, nýsprottinn á Skeiðarársandi, eigi uppruna sinn að rekja til Bæjarstaðaskógs. „Það er mikilvægt að endurheimta birkiskóga á Íslandi og það einstaka vistkerfi sem þeim fylgir. Því er æskilegast að gefa skógunum rými til að stækka að sjálfu sér eða nýta fræ af því landsvæði eða landshlutum þar sem rækta á nýja birkiskóga“, segir KP.