Framkvæmdum við leikskólann Klappir senn að ljúka
„Það gerist mikið á hverjum degi og þetta gengur vel,“ segir Guðríður Friðriksdóttir, sviðsstjóri umhverfis-og mannvirkjasviðs Akureyrarbæjar, í samtali við Vikublaðið um framkvæmdir við leikskólann Klappir við Glerárskóla á Akureyri. Unnið er að frágangi innan í húsinu og á lóðinni og er svæðið óðum að taka á sig mynd.
Guðríður segir að starfsemi muni hefjast í leikskólanum í byrjun september þó svo að öllum framkvæmdum verði ekki endanlega lokið. Miðað er við 145 barna leikskóla og taka á inn börn frá eins árs aldri. Heildarstærð skólans er um 1450m² og skiptist húsið í tvær hæðir.