30. október - 6. nóember - Tbl 44
Framkvæmdir við Hlíð í farvatninu Taka tíma og áfram verður reynt á þolrifin
„Loksins eru hlutir að hreyfast og erum við þakklát fyrir það, en nú er gert ráð fyrir að fara í vinnu við þak og glugga sem og einnig innanhúss í kjölfar útboðs. Það er ljóst að verkefnið mun standa í marga mánuði og tilfærsla verður heilmikil og mun reyna áfram á þolrifin,“ skrifar Teitur Guðmundsson forstjóri Heilsuverndar Hjúkrunarheimila um fyrirhugaðar framkvæmdir á húsnæði Hlíðar á Akureyri í pistli sem hann skrifar á fésbók.
Fram kemur að fulltrúar heilbrigðisráðuneytis og Heilsuverndar hafi átt fund vegna ástands húsnæðis Heilsuverndar á Akureyri sem mikið hefur verið fjallað um síðustu misseri. „Við höfum gengið á eftir því um nokkuð langt skeið að fá framkvæmdaáætlun í farveg og lagfæringar á húsnæðinu svo við getum nýtt það sem skyldi,“ skrifar Teitur. Vonast hann til að allt gangi hratt fyrir sig svo hægt verði að nýta þau rými sem lokað var og taka á móti þeim sem svo sannarlega þurfa á þjónustu að halda.
Einnig kemur fram að árangur varðandi tekjutapið sem skapast hefur samhliða skertri nýtingu hafi einnig náðst sem vissulega séu góð tíðindi. „Við höfum þurft að berjast nokkuð fyrir þessu og fært góð rök máli okkar til stuðnings, sem hefur skilað þessum árangri,“ segir hann og þakkar íbúum okkar, aðstandendum og starfsfólki þolinmæðina og styrkinn „sem felst í því að samtaka tekst okkur að yfirstíga stærstu hindranir. Ég hef aldrei efast um að það myndi takast að ná þessu fram og við næðum áheyrn og skilningi.“