Framkvæmdastjóraskipti hjá Slippnum um áramót, Páll tekur við af Eiríki

Framkvæmdastjóraskipti eru framundan, Páll Kristjánsson hefur verið ráðinn í stöðuna og tekur við um…
Framkvæmdastjóraskipti eru framundan, Páll Kristjánsson hefur verið ráðinn í stöðuna og tekur við um áramót. Á sama tíma lætur Eiríkur S. Jóhannsson sem verið hefur framkvæmdastjóri í sex og hálft af störfum. Fleiri breytingar á yfirstjórn voru kynntar á starfsmannafundi í dag. Mynd frá Slippnum

Framkvæmdastjóraskipti eru framundan hjá  Slippnum, Páll Kristjánsson hefur verið ráðinn í stöðuna og tekur við um áramót. Á sama tíma lætur  Eiríkur S. Jóhannsson sem verið hefur framkvæmdastjóri í sex og hálft af störfum.

„Ég lít stoltur um öxl. Tími minn hjá Slippnum hefur verið mér gefandi. Við höfum í sameiningu styrkt undirstöður fyrirtækisins til muna og lagt mikið af mörkum til nýsköpunar, sem ég trúi að skapi Slippnum fjölmörg sóknartækifæri,“ segir Eiríkur í tilkynningu frá fyrirtækinu. Hann kveðst bjartsýnn fyrir hönd fyrirtækisins enda starfsfólk sannað að það er í fremstu röð á sínu sviði í þjónustu við alþjóðlegan sjávarútveg og aðra viðskiptavini.

Eiríkur segir að hann sé í stjórnum margra fyrirtækja sem krefjast meiri athygli en hann hafi að undanförnu náð að veita. Hann segir Slippinn í góðum höndum Páls og annarra starfsmanna og því hafi ákvörðunin verið einföld, „og að því er ég tel félaginu til framdráttar.“

Margt í pípunum

Páll hefur stýrt framleiðslusviði Slippsins. Hann er viðskiptafræðingur frá Háskólanum í Árósum í Danmörku og þekkir vel til sjávarútvegstengdra verkefna. Áður hefur hann starfað hjá Marel 3X  Technology og sjávarútvegsfyrirtækinu GPS Seafood á Húsavík.

 

„Starfsmenn Slippsins eru um 150 en má segja að þeir séu mun fleiri, því við leitum í ríku mæli til samstarfsfyrirtækja, þannig getum við þjónað viðskiptavinum okkar enn betur og boðið upp á heildarlausnir. Slippurinn hefur alltaf lagt ríka áherslu á góða og faglega þjónustu, sem er líklega
helsta ástæðan fyrir því að viðskiptavinirnir koma  aftur til okkar. Það er margt í pípunum og
fullt tilefni til bjartsýni á þessum tímapunkti. Slippurinn er öflugt fyrirtæki með frábært starfsfólk og ég er því fullur tilhlökkunar,“ segir Páll.

Fleiri breytingar kynntar

Fleiri breytingar voru kynntar hjá Slippnum í kjölfar framkvæmdastjóraskiptanna. Magnús Blöndal Gunnarsson, sem verið hefur markaðsstjóri undanfarin ár, tekur  við stjórn framleiðslusviðs félagsins af Páli Kristjánssyni. Magnús er sjávarútvegs- og fiskeldisfræðingur frá Háskólanum á Akureyri og Háskólanum að Hólum.

Samhliða þessum breytingum mun Kristján H. Kristjánsson mannauðsstjóri taka yfir kynningarmál Slippsins. Kristján er menntaður byggingafræðingur, með áherslu á stjórnun, frá VIA University í Horsens í Danmörku.

Nýverið tók Sveinbjörn Pálsson við stjórn Skipaþjónustusviðs Slippsins. Sveinbjörn er iðnaðarverkfræðingur frá Chalmers Tekniska Högskola í Gautaborg og hefur víðtæka starfreynslu til sjós og lands. Hann kom til Slippsins frá upplýsingatæknifyrirtækinu Þekkingu.

Í sumar tók Elsa Björg Pétursdóttir við starfi fjármálastjóra félagsins. Elsa er menntaður viðskiptafræðingur frá Háskólanum á Akureyri og hefur m.a. starfað um árabil hjá Íslandsbanka, seinast sem svæðisstjóri einstaklingsviðskipta á Norður- og Austurlandi. 

Fjölbreytni starfa er mjög mikil hjá Slippnum og starfsmannavelta almennt lítil að því er fram  kemur í tilkynningunni og einnig að safnast hafi „upp áralöng þekking og reynsla sem einkennir vinnubrögð hjá starfsmönnum félagsins. „

MÞÞ

 

Nýjast