20. nóvember - 27. nóvember - Tbl 47
Framkvæmdahugur á Grenivík
Sótt hefur verið um allar nýjar lóðir sem í boði voru við Lækjarvelli á Grenivík. Þær voru í allt 8 og undir fjögur raðhús.
Áformað er að byggja í allt 19 íbúðir á svæðinu, „sem létta vonandi verulega á miklum húsnæðisskorti sem verið hefur,“ segir á vefsíðu Grýtubakkahrepps. Þá er einnig hafin eða um það bil að hefjast bygging á nokkrum einbýlishúsum á Grenivík. Einnig styttist í að 5 nýjar íbúðir í raðhúsi við Höfðagötu verði tilbúnar.
Húseiningar í hótelbyggingu væntanlegar
Gangi öll plön eftir munu yfir 30 íbúðir verða tilbúnar á næstu tveimur árum og eru þá starfsmannahús sem reist hafa verið í tengslum við hótelbyggingu ekki meðtalin, en þau voru fullbúin fyrir nokkru. Vinna við hótelbyggingu er í fullum gangi og er fyrsta skipið með húseiningum í hótelið væntanlegt til Akureyrar á næstu dögum. Byggingin fer því að taka á sig endanlega mynd hvað úr hverju.
Erfitt hefur verið að manna störf á Grenivík nú í seinni tíð, sem dæmi bráðvantar starfsfólk á hjúkrunarheimilið Grenilund. „Vonandi léttist það með tilkomu nýrra íbúða og í leiðinni mun íbúðum í hreppnum fjölga töluvert sem er fagnaðarefni,“ segir ennfremur.