Fráfallið skyldi eftir sig djúp sár í hjörtum okkar

Minningartónleikar um Stefán Arnar Gunnarssonar fara fram annan laugardag  Myndir aðsendar
Minningartónleikar um Stefán Arnar Gunnarssonar fara fram annan laugardag Myndir aðsendar

„Fráfall Arnars skyldi eftir sig djúp sár í hjörtum okkur og að skipuleggja og halda svona viðburð er nokkuð sem ég bjóst aldrei við að gera. Ég sakna stóra bróður míns alveg gríðarlega. Hann var alltaf bara einum skilaboðum eða símtali frá, allt í einu svarar hann ekki lengur og mun ekki gera framar,“ segir Sólveig Árnadóttir systir Stefáns Arnars Gunnarssonar sem lést í mars síðastliðnum. Minningartónleikar um hann verða haldnir á Vitanum á Akureyri  laugardaginn 16 september næst komandi. . Fram koma listamenn sem hann mat hvað mest, Stebbi Jak og Helgi & Hljóðfæraleikarnir. 

„Við fjölskylda Arnars stöndum fyrir minningartónleikum en með þessum viðburði viljum við heiðra minningu Arnars og gefa þeim fjölmörgu sem þekktu til hans tækifæri á að koma saman og eiga góða kvöldstund með uppáhalds tónlistarfólkinu hans.

„Ævistarf og ástríða Arnars var að þjálfa og hjálpa öðrum að ná sínum markmiðum og hann gerði allt sitt til að hjálpa sínum iðkendum. Hann hafði samband við foreldra barna sem hann var jafnvel hættur að þjálfa með það í huga að athuga með barnið og vera því áfram innan handar ef hann gat,“ segir Sólveig. Hún kveðst ekki hafa deilt handboltaáhuga með honum, en fylgdist grannt með því sem hann var að gera og sá þá leiki sem hún hafði tök á að koma á.

Þannig var hann, góður, traustur

„Hann náði mér ekki á Iron Maiden tónleika en hann tryggði þó að ég kynni að slamma og gera rokkaramerkið með fingrunum áður en ég lærði að lesa. Hann kenndi mér að sjá Venus frá tunglinu og mun ég alltaf hugsa hlýtt til hans þegar skyggnið býður uppá þá sjón. Ég man svo vel þegar Addi las fyrir mig þegar ég var lítil, hann breytti röddinni fyrir hverja sögupersónu – sem gerði bókina svo áhugaverða. Það tók Adda alltaf undir mínútu að ná krökkunum mínum á sitt band þrátt fyrir að það liðu kannski vikur/mánuðir á milli þess sem þau hittu hann. Þannig var hann, góður, traustur, áhugaverður og sýndi áhuga. Hann hafði hrjúft yfirborð - en var mýkri að innan fyrir þá sem hann hleypti þangað. Söknuðurinn er mikill og saman munum við halda minningu hans á lofti,“ segir Sólveig.

Snortin af fórnfýsinni

Allur ágóði af miðasölu mun renna óskiptur í stofnun minningarsjóðs sem mun halda minningu Arnars á lofti með því að styðja við efnileg ungmenni sem stunda handknattleik og stefna hátt, nokkuð sem var hans ástríða og ævistarf.

Einnig er hægt að styrkja minningarsjóðinn með frjálsum framlögum ef fólk kemst ekki á tónleikana en vill engu að síður leggja sitt af mörkum. Hægt er að kaupa miða og styrkja sjóðinn inná www.addimaze.is

„Stebbi Jak og H&H gefa vinnu sína þetta kvöld og Helgi eigandi Vitans lánar okkur staðinn sinn svo að viðburðurinn geti farið fram og erum við þeim mjög þakklát og snortin af fórnsýninni,“ segir  Sólveig og bætir við að fleiri hafi lagt málinu lið, m.a. við hönnun auglýsinga og tæknimál. „Minning um frábæran dreng og góðan traustan bróðir lifir áfram í hjörtum okkar.

Stefán Árnason, Arnar Gunnarsson, Samúel Ívar Árnason og Sólveig Árnadóttir.

 

 

 

Nýjast