13.nóvember - 20.nóvember - Tbl 46
Fræðsla fyrir íþróttafélög um kynferðislega áreitni
Akureyrarbær ásamt Íþróttabandalagi Akureyrar (ÍBA) og Íþrótta- og ólympíusambandi Íslands (ÍSÍ) stóð fyrir fræðslufyrirlestrum um kynferðislega áreitni.
Haldnir voru fjórir fyrirlestrar fyrir þjálfara, starfsfólk, stjórnarmenn og foreldrafulltrúa aðildarfélaga ÍBA og mættu alls um 100 manns.
Á fyrirlestrunum var farið yfir skilgreiningar og birtingarmyndir kynferðislegrar áreitni og afleiðingar hennar á einstaklinga, íþróttafélög og samfélagið. Fjallað var um vinnustaðamenningu og áhrif hennar á hegðun fólks. Síðast en ekki síst var farið yfir og gefin góð ráð um hvað fólk innan aðildarfélaga ÍBA getur gert til að fyrirbyggja og bregðast við kynferðislegri áreitni í sínu umhverfi.
Fyrirlestrarnir fóru fram í Íþróttahöllinni og voru í umsjón Önnu Lilju Björnsdóttur og Bryndísar Elfu Valdemarsdóttur sérfræðinga í jafnréttismálum.