Frá Norðurþingi vegna Húsavíkurflugs og flugstöðvar á Húsavíkurflugvelli.

Frá Húsavík     Mynd  Egill Páll
Frá Húsavík Mynd Egill Páll

Málefni Húsavíkurflugvallar hafa verið á til umfjöllunar hjá byggðarráði Norðurþings vegna ástands flugstöðvarbyggingarinnar sem hefur verið í langvarandi viðhaldssvelti. Í nóvember 2022 komu fulltrúar Isavia á fund byggðarráðs til að ræða málefni Húsavíkurflugvallar. Eftirfarandi var bókað: „Byggðarráð Norðurþings skorar á ríkisvaldið og ISAVIA að sinna viðhaldi flugstöðvarbyggingarinnar á Húsavíkurvíkurflugvelli. Ljóst er að húsnæði er komið á viðhald en því hefur ekki verið sinnt í árafjöld. Árið 2012 hófst flugrekstur aftur eftir hlé frá aldamótum. Nú er reglubundið flug um völlinn, í byggingunni starfar fólk og um hana fara þúsundir farþegar á ársgrundvelli. Því er það eðlileg og skýlaus krafa byggðarráðs Norðurþings að viðhaldi verði sinnt.“

Á samgönguáætlun, sem var í samráðsgátt stjórnvalda í sumar, eru áætlaðar 80 millj.kr á árunum 2024 og 2025 í byggingar og búnað á Húsavíkurflugvelli. Von er á stjórn ISAVIA til samtalsfundar með byggðarráði Norðurþings síðar í október ef áætlanir ganga eftir.

Áætlunarflug til Húsavíkur

Byggðarráð Norðurþings tók málefni Húsavíkurflugvallar í tvígang til umfjöllunar í sumar m.a. vegna ályktunar stjórnar Húsavíkurstofu um áhyggjur af samkeppnisrekstri í innanlandsflugi og fyrirsjáanlegri skertri þjónustu í sjúkraflugi á landsbyggðunum vegna skilmála útboðs sjúkraflugs. Á fundunum var rætt um ofangreint en einnig mikilvægi þess að haldið sé uppi reglulegu áætlunarflugi á Húsavíkurflugvöll.

Byggðarráð kom þessum sjónarmiðum á framfæri við stjórn Flugfélagsins Ernis á fundi með fulltrúa stjórnar Ernis í lok ágúst og undirstrikaði mikilvægi þess að haldið verði áfram með reglulegt áætlunarflug á Húsavíkurflugvöll, fyrir íbúa, atvinnulíf og frekari vöxt svæðisins.

Á fundi byggðaráðs í morgun, 14. september, lágu fyrir upplýsingar um samtöl Norðurþings við flugfélagið Erni og ríkisvaldið um framtíð áætlanaflugs til Húsavíkur. Eftirfarandi var bókað: „Byggðarráð ítrekar fyrri bókanir sínar um mikilvægi þess að reglulegt áætlunarflug um Húsavíkurflugvöll í Aðaldal haldi áfram. Flugið skipar mikilvægan sess í atvinnuuppbyggingu í Þingeyjarsýslum sem framundan er með tilkomu Grænna Iðngarða á Bakka, tvöföldun Þeistareykjavirkjunar, landeldi á svæðinu og ferðaþjónustu sem er ein stærsta atvinnugreinin á svæðinu. Enn fremur er flugið mikilvægt fyrir íbúa sem þurfa að sækja þjónustu á höfuðborgarsvæðið, s.s. heilbrigðisþjónustu og vegna atvinnusóknar. Byggðarráð skorar á ríkisstjórn Íslands að veita tímabundinn styrk svo að áætlunarflug til Húsavíkurflugvallar leggist ekki niður.“

Auk funda með stjórnarmönnum Ernis hefur sveitarstjórn Norðurþings fundað með þingmönnum kjördæmisins, fulltrúum SSNE og fulltrúum stéttarfélaganna í Þingeyjarsýslum. Þá hafa sveitarstjórar Norðurþings og Þingeyjarsveitar fundað með Innviðaráðuneytinu vegna málsins. Samtöl og fundahöld halda áfram næstu daga á meðan reynt er að tryggja áframhaldandi áætlunarflug á Húsavíkurflugvöll.

Virðingarfyllst,

Katrín Sigurjónsdóttir, sveitarstjóri.

Þetta segir i yfirlysingu sem birt var á heimasíðu Norðurþings nú i morgun

Nýjast