Föstudagsfréttir frá Hrísey

Nú veit fréttaritari ekki hvort biðjast eigi afsökunar á mjög svo villandi veðurfréttaflutning í síðustu föstudagsfréttum þar sem boðaðar voru gular veðurviðvaranir. Eða, hvort það sé bara málið, boða viðvarnir og gleðjast svo mikið þegar það gula í spánum er bara sólin! Um síðustu helgi var veður gott, smá að flýta sér, en hlýtt og sólin skein. Fermingardrengirnir áttu góðan dag með fólkinu sínu og eyjan iðaði af lífi þessa þriggja daga helgi. Mér láðist að óska þriðja fermingadrengnum til hamingju með sína fermingu og bið afsökunar á því. Hann Adam Domanski var fermdur við hátíðlega athöfn þann 18.maí við kaþólsku kirkjuna á Akureyri. Við óskum honum og fjölskyldu hans innilega til hamingju með daginn.

Sumaropnanir eru að detta inn hér í Hrísey. Íþróttamiðstöðin hefur lengt opnunartíman, Verbúðin 66 er nú opin alla daga og hús Hákarla-Jörundar er opið. Hópar af ferðafólki sjást orðið daglega á göngum sínum um eyjuna og eins og Ingólfur Margeir heitinn skrifaði í bók sína, Þar sem tíminn hverfur, þá læra ferðamennirnir að bjóða góðan daginn á göngu sinni og eru farin að gera það að fyrra bragði þegar nálgast ferjutíma aftur.

Talandi um ferjur þá gaf Vegagerðin það út að Sæfari ætti að hefja siglingar aftur í næstu viku ( sjá hér ) og samgleðjumst við Grímseyingum mjög. Við eyjasamfélögin erum upp á  ferjusiglingar komin og því afar mikilvægt að þær séu öruggar, bæði ferjurnar sjálfar sem og afleysing þegar þær fara í slipp.

Skipulagsráð Akureyrarbæjar tók fyrir á fundi sínum í vikunni, hugmyndir af breyttum lóðum við Austurveg í Hrísey. Upphafleg beiðni var að breyta tveimur lóðum en hugmyndirnar sem komu frá ráðgjöfum snúa allar að þeim fjórum lóðum sem lausar eru við Austurveg 15-21. Vísaði skipulagsráð erindinu til umsagnar hjá hverfisráði Hríseyjar sem mun fara yfir þær og skila inn athugasemdum. Óskin var um að fá fjölbýlishúsalóðir og þá helst í formi rað og/eða parhúsa. Leigufélögum og verktökum hugnast frekar að reisa slík íbúðarhúsnæði og þar sem við stöndum frammi fyrir húsnæðisskorti var farin þessi leið. Eru hugmyndirnar sem kynntar voru skipulagsráði enn bara hugmyndir og athugasemdum hverfisráðs, ef þær verða, munu eflaust hafa áhrif á loka niðurstöðu. Hugmyndirnar eru opinbert skjal og geta áhugasöm kynnt sér þær hér.

Fimmtudaginn 1.júní var Hríseyjarskóla slitið eftir góðan vetur. Tveir nemendur útskrifuðust úr 10.bekk, þau Anna María Antonsdóttir og Heimir Sigurpáll Árnason. Við óskum þeim til innilega hamingju með áfangan og velfarnaðar í nýjum ævintýrum og áskorunum næsta vetur í landi. Vilborg Valgeirsdóttir lét af störfum eftir 20 ár við kennslu í Hríseyjarskóla. Hún sló á létta strengi í kveðjuræðu sinni og þakkaði nemendum, foreldrum og ömmum og öfum fyrir samstarfið. En þegar hún hóf störf voru ömmur og afar núverandi nemenda með sín börn í skólanum. Hefur Vilborg því kennt tveimur kynslóðum Hríseyinga!

Á morgun, laugardag, verður kynningafundur um Þróunarfélag Hríseyjar og við hvetjum áhugasöm til þess að mæta í Hlein klukkan 16:15.

Nemendaráð Hríseyjarskóla verður með gramsmarkað fyrir utan Hríseyjarbúðina í dag, föstudag, klukkan 16:00-20:00, og á morgun, laugardag, klukkan 13:00-16:00. Það er aldrei að vita hvaða fjársjóði maður getur fundið á svona markaði!

Sjómannadagur er sunnudaginn 4.júní. Við tökum smá forskot á sæluna hér í Hrísey og er skemmtidagskráin núna á laugardeginum. Þó að tímarnir breytist og mennirnir með, þá er óþarfi að breyta því sem gott er og er því dagskráin með hefðbundnum hætti. Sigling, messa, grill í boði ferjumanna, leikir og kaffihlaðborð Björgunarsveitar Hríseyjar, allt á sínum stað! Ef veður verður með besta móti má gera ráð fyrir fjölmörgum gestum í eyjunni og við hvetjum þá til þess að taka þátt í dagskránni með okkur.

Hríseyjarpizzur eru á sínum stað í kvöld, Verbúðin 66 er opin alla daga og býður núna upp á heimilismat í hádeginu líka. Svo enginn ætti að verða svangur í Hrísey.

Núna hættir fréttaritari sér á óvissuslóðir. Veður. Núna var farið í ögn meiri rannsóknarvinnu og fleiri veðurfréttasíður skoðaðar. Ef lagðar eru saman niðurstöður þeirra allra má gera ráð fyrir hita yfir frostmarki, sólarglætu og hefðbundinni hafgolu... Eða, hiti um 13 gráður, sól með skýjum á dreif á laugardegi, möguleg væta á sunnudegi og svo er nú nánast alltaf hafgola hérna hjá okkur (sem er algjör snilld þegar þarf að þurrka þvott!). 

Nýjast