20. nóvember - 27. nóvember - Tbl 47
Forslátrun hjá Kjarnafæði-Norðlenska hófst s.l fimmtudag
„Það er ljóst að sauðfé fækkar enn og við sjáum ekki fyrir endann á því. Það er grafalvarlegt mál og erfitt að stoppa það ferli. Ekki bætir úr skák að forsvarsmenn stórverslana sem skila milljörðum í hagnað fá óhindrað að koma fram í fjölmiðlum og vara við þeim hækkunum sem bændur eru nú í haust að fá frá afurðastöðvum,“ segir Sigmundur Hreiðarsson framleiðslustjóri Kjarnafæðis-Norðlenska í sláturhúsinu á Húsavík.
Forslátrun hófst í sláturhúsinu s.l fimmtudag. Fullmannað hús tekur til starfa í næstu viku, miðvikudaginn 6. september. „Það hefur gengið nokkuð vel að ráða starfsfólk, enda starfsmannadeildin okkar vel sjóuð í þessum efnum en húsnæðismálin verða alltaf erfiðari og erfiðari með hverju árinu. Nú í haust erum við að fá fólk frá 13 þjóðlöndum til starfa, margt af því hefur komið árum saman til okkar, en við erum einnig með mjög sterkan kjarna sem starfar hjá okkur á ársgrundvelli,“ segir Sigmundur.
Gert er ráð fyrir að heildarslátrun í haust verði um 80 þúsund fjár. Fyrir örfáum árum, haustið 2019 var slátrað yfir 100 þúsund fjár.
Sigmundur segir að ef allt gangi að óskum „og veðurguðir verði í liði með okkur ásamt því góða samstarfi sem við höfum átt við okkar bændur, verktaka og tengiliði í sveitunum þá gerum við ráð fyrir að vertíðinni ljúki eigi síðar en fimmtudaginn 26. október.“