Foreldrar eru mikilvægasta forvörnin

Gunnlaugur Guðmundsson. Mynd/Þröstur Ernir.
Gunnlaugur Guðmundsson. Mynd/Þröstur Ernir.

Þegar kemur að forvörnum fyrir unglinga gegna foreldrar stærsta hlutverkinu.Tölvufíkn og félagsleg einangrun er vaxandi vandi á meðal barna og unglinga. Baráttunni gegn vímuefnaneyslu er hvergi lokið. Áfengisdrykkja eykst að jafnaði um 16 ára aldur. Vikudagur settist niður með Gunnlaugi Guðmundssyni starfandi fornvarnarfulltrúa hjá Akureyrarbæ.

„Forvarnir eru mikilvægar og beinast ekki aðeins  gegn tóbaki, áfengi og  fíkniefnum. Þetta getur átt við átröskun, vöðvafíkn, tölvufíkn, geðheilsu,samskipti, kynlífi og framtaksleysi. Forvarnir snúast heldur ekki bara um að börn og unglingar hlusti á raunasögu ákveðins einstaklings. Fræðsla er vissulega af hinu góða en besta forvörnin er hins vegar að vinna með ungu fólki á þeirra grundvelli,“ segir Gunnlaugur.

Samvera skiptir máli

„Foreldrar eru mikilvægasta forvörnin. Allt sem kemur að heiman skiptir máli og því er nauðsynlegt að virkja foreldra í að taka þátt í lífi barna sinna. Samvera foreldra og barna er mikilvægasti þátturinn í þessu. Þetta þurfa ekki að vera stór atriði, sameiginlegur kvöldmatur getur t.d. haft mikil áhrif. Aðrir fullorðnir skipta einnig miklu máli í þessu samhengi eins og kennarar, starfsfólk félagsmiðstöðva og þjálfarar. Mikilvægustu verkefnin og þau sem skila mestum árangri í forvörnum snúast um að virkja börn og unglinga og hlúa að þeirra áhugamálum.“

Vímuefnaneysla

Í ESPAD rannsókn sem gerð var árið 2011 og var unnin af Háskólanum á Akureyri sýndu niðurstöður að neysla vímuefna hjá unglingum í grunnskólum hér á landi er lág miðað við aðrar Evrópuþjóðir. „Neyslan er hins vegar til staðar og sömu rannsóknir benda til þess að þeir unglingar sem eru í neyslu hér á landi lenda frekar í vandræðum vegna neyslu sinnar en jafnaldrar þeirra í Evrópu. Það eru einnig viðvörunarbjöllur á lofti hvað varðar kannabisneyslu í framhaldsskólunum og viðhorfi til kannabisefna. En á móti er mjög mikilvægt að hafa í huga að langflest ungmenni eru í góðum málum og það er okkar sem eru í ábyrgðarstöðu að halda því þannig og gera allt hvað við getum til að hjálpa þeim sem villast af leið.“

throstur@vikudagur.is

Lengra viðtal við Gunnlaug má finna í nýjustu prentútgáfu Vikudags.

Nýjast