20. nóvember - 27. nóvember - Tbl 47
Fleiri gestir og meiri tekjur á skíðasvæðinu í Hlíðarfjalli
Unnið er að undirbúningi sumaropnunar fyrir útivistarfólk í Hlíðarfjalli þessa dagana. Stefnt er að því að opna hjólagarð þegar aðeins er liðið á júlímánuð og verður hann opin fram í september. Farið verður í umfangsmikla og kostnaðarsama viðhaldsvinnu í sumar, meðal annars við Fjarkann og Fjallkonuna. Einnig verður nýr vír settur í Stromplyftuna, gírabúnaður endurnýjaður í Hjallabraut og svo mætti áfram telja. Þar fyrir utan er tímabært að ráðast í ýmsar framkvæmdir og endurnýjun á húsakosti svæðisins.Viðamesta framkvæmd sumarsins á skíðasvæðinu er bygging nýrrar vélageymslu, reisulegs stálgrindarhúss, og eru áætluð verklok 2024.
Fjarkinn verður opinn fjóra daga í viku, hluta úr degi fyrir hjólafólk og þá sem vilja koma sér hærra upp í fjallið og þá stefnt að því að Fjallkonan verði einnig opin fimm helgar frá því síðla í júlí og fram eftir ágústmánuði.
Góður vetur að baki
Veturinn var góður á skíðasvæðinu að því er fram kemur á vefsíðu bæjarins og jukust tekjur af rekstri þess nokkuð. Fleiri gestir sóttu svæðið einnig heim á liðnum vetri en þeim þar á undan. Opið var í 105 daga samanborið við 99 veturinn áður.
Fjölmörg mót sem áttu að fara fram á öðrum skíðasvæðum voru færð til Hlíðarfjalls enda hélst snjórinn betur þar en víðast annars staðar á skíðasvæðum landsins. Þar fyrir utan gekk snjóframleiðslan vel og voru sjóbyssurnar á fullu í 22 daga þennan vetur en meðaltal fyrri ára er 7-10 dagar. Nýja stólalyftan, Fjallkonan, var keyrð í 23 daga sem er um það bil fjórðungur af opnunardögum vetrarins í Hlíðarfjalli.