Fjárstuðningi við bifreiðaskoðun austan Húsavíkur hafnað

Byggðarráð Norðurþings tók fyrir á dögunum erindi frá atvinnu- og samfélagsfulltrúa Öxarfjarðarhéraðs vegna aðstöðu til bifreiðaskoðunar á Kópaskeri.

Á síðasta ári hætti Frumherji þjónustu á Kópaskeri og nágrenni eftir að starfsmaður Frumherja á Húsavík hætti störfum. Samstarfssamningi við verkstæðið Röndin á Kópaskeri var því sagt upp. Vegna ákvörðunar Frumherja er ljóst að íbúar Kópaskers, Raufarhafnar og nágrennis þurfa að aka um langan veg eða allt að 260 km. og taka sér frí úr vinnu a.m.k. í einn dag til að láta skoða ökutæki sín. Þetta eru íbúar svæðisins afar ósáttir við.

Í erindinu er óskað eftir því að sveitarfélagið Norðurþing komi að tveggja ára tilrauna-/samstarfsverkefni Aðalskoðunar, Norðurþings og Randarinnar á Kópaskeri með fjárframlagi upp á 200.000 á hvoru ári.
Einnig barst erindi frá hverfisráði Raufarhafnar þar sem tekið er undir erindi atvinnu- og samfélagsfulltrúa Öxarfjarðarhéraðs og sveitarfélagið hvatt til að sækja fjárframlagið til ríkisins þar sem um lögbundna þjónustu sé að ræða.

Byggðarráð hafnaði erindinu en tók undir áhyggjur íbúanna í bókun og fól sveitarstjóra að senda ábendingu á Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið um stöðu þjónustunnar á svæðinu.

Benóný Valur Jakobsson, varaformaður byggðarráðs segir í samtali við Vikublaðið að það sé ekki við hæfi að sveitarfélag sé að niðurgreiða bifreiðaskoðun til einkaaðila. „Það finnst mér ekki góð hugmynd, a.m.k. án þess að bjóða það út. Ef við hefðum farið í þetta þá getum við ekki samið bara við einn aðila [Aðalskoðun]. Það yrði þá að gefa öðrum skoðunaraðilum tækifæri á að bjóða í reksturinn,“ segir Benóný.

 

Nýjast