13.nóvember - 20.nóvember - Tbl 46
Fimm Covid-smit í Grímsey og nær allir á eyjunni í sóttkví
Fimm hafa greinst með kórónuveiruna í Grímsey en fyrstu tvö smitin greindust í síðustu viku og fóru nær allir á eyjunni í sóttkví í kjölfarið, ýmist í sjálfskipaða sóttkví eða formlega sóttkví. Rúv greinir frá þessu. Þar segir Karen Nótt Halldórsdóttir, íbúi í Grímsey, eyjuna hafa lamast í nokkra daga en nú sé sóttkví lokið hjá flestum.
Undanfarnir dagar hafa verið sérstakir í Grímsey en á eyjunni búa um fjörutíu manns, að sögn Karenar. Smitin settu nokkrar skorður á lífið á eynni en loka þurfti verslun og veitingastað Grímseyjar á meðan á sóttkví stóð. Nú sé þá búið að opna verslunina á ný.
„Við losnuðum úr sóttkví í gær. Við vorum skimuð á sunnudag en það kemur hingað læknir frá Akureyri á þriggja vikna fresti og hann var að koma með örvunarskammtinn fyrir okkur sem fengum Janssen-bóluefnið. Hann kom þá líka með græjur til að skima í leiðinni, “ sagði Karen Nótt í Morgunútvarpinu á Rás 2.
Karen Nótt segir Grímseyinga hafa sloppið við smit fram að þessu og bendir jafnframt á að ferðamannastraumurinn hafi verið meiri í ár en síðasta sumar.