20. nóvember - 27. nóvember - Tbl 47
Fellum ekki illa laufguð tré í fljótfærni
Athygli hefur vakið að nokkuð er um að aspir laufgist ekki og hefur áhugafólk velt fyrir sér hverju veldur. Pétur Halldórsson skrifar á vef Skógræktarinnar um málið.
,,Alaskaösp er nú skemmd víða á landinu en ástæðulaust er að hlaupa til og fella slík tré því allar líkur eru á því að flest þeirra muni ná sér, að einhverju leyti í sumar og svo að fullu næsta sumar. Sunnanlands eru skemmdirnar vegna kulda og særoks en nyrðra er líklega um að kenna næturfrostum sem urðu snemma vors þegar tilteknir asparklónar voru byrjaðir að laufgast. Á höfuðborgarsvæðinu og víðar sunnan- og vestanlands ber töluvert á trjáskemmdum, einkum á lauftrjám sem byrjuð voru að laufgast en fóru illa í kaldri suðvestanátt sem hefur verið ríkjandi frá því kom fram á vorið. Tré voru komin nokkuð af stað í apríl og farin að laufgast en nú eru laufin svört á að líta og veðurbarin. Þetta er mjög áberandi á alaskaösp.
Á Norðurlandi ber líka nokkuð á skemmdum á trjám og þar er það líka öspin sem virðist verst leikin. Svo er að sjá sem tilteknir klónar sem voru í ræktun fyrir fáeinum áratugum og finnast víða í Eyjafirði og Þingeyjarsýslum hafi verið farnir að laufgast snemma í vor en farið illa í næturfrostum sem gerði um mánaðamótin apríl-maí. Þá er líka nokkuð um skemmdir á lerki, væntanlega af sömu orsökum.
Í báðum tilvikunum er vert að bíða og sjá hvernig trén spjara sig þegar kemur fram á sumarið. Ekki er ólíklegt að þau laufgist að einhverju leyti strax í sumar úr dvalarbrumum sem trén hafa „til vara“ ef svo má segja. Í mörgum tilfellum gætu þau náð að laufgast allvel áður en sumarið er úti. Næsta sumar ættu þau síðan að laufgast eðlilega þótt mögulega kunni að þurfa að snyrta einhver þeirra eða jafnvel fella.
Að rjúka til strax og fella myndarlegar aspir þótt sjái á þeim nú í byrjun sumars er óþarfa fljótfærni. Rétt er að bíða næsta sumars og sjá hverju fram vindur. Mikill missir getur verið að trjám sem tekið hefur áratugi að vaxa.
Meðfylgjandi myndir voru teknar 7. júní 2023 á Akureyri."
Myndir: Pétur Halldórsson