Fantagóður fiskur
„Það er fantagóður fiskur hér um slóðir, menn hafa verið að fá þetta 5 til 8 kílóa þorsk, það virðist vera mikill fiskur á miðunum hér um kring, vænn og góður,“ segir Jóhannes G. Henningsson útgerðarmaður í Grímsey.
Heldur rólegt er þó yfir veiði um þessar mundir, margir að búa sig undir veiðar þegar kemur inn á haustið en þá verða nokkrir bátar gerðir út á net frá eynni. „Það eru örfáir að skrölta á færi núna og tveir á netum,“ segir hann. Aflabrögð hafi verið góð og segir Jóhannes verulega ósanngjarnt að klippt hafi verið á strandveiðar í byrjun júlí þegar hámarki var náð, en einmitt þá var fyrst hægt að veiða fyrir norðan og enn seinna fyrir austan. „Það er alveg klárt í mínum huga að það þar að laga regluverkið fyrir næsta sumar. Þegar hámarkinu var náð voru við varla byrjaðir að veiða hér norðan heiða.“
Jóhannes segir að standveiði lífgi mjög upp á tilveruna í sjávarplássum, aðkomufólk komi tímabundið og allt lifni við, en því var ekki að heilsa nú í sumar þegar veiðar voru stöðvaðar nánast um leið og þær voru að hefjast á norðanverðu landinu. „Þetta var alveg ömurlegt og ég ætla svo sannarlega að vona að bragarbót verði gerð á.“