Fallið frá því að taka upp nýtt leiðakerfi strætó á Akureyri
Á fundi umhverfis- og mannvirkjaráðs Akureyrarbæjar í síðustu viku var fallið frá áformum um að taka upp nýtt leiðakerfi strætó á Akureyri en samþykkt að marka þá stefnu að reka áfram öfluga og gjaldfrjálsa þjónustu strætisvagna á grundvelli núverandi leiðakerfis. Þetta kemur fram í tilkynningu á vef Akureyrarbæjar.
Í bókun ráðsins segir að fyrir þessu séu nokkrar veigamiklar ástæður, svo sem:
- Stofnkostnaður við innviði og fjölgun vagna í nýju kerfi er um 350 mkr. umfram það sem þarf í núverandi leiðakerfi.
- Árlegur rekstrarkostnaður í nýju leiðakerfi er talinn verða um 50-60 mkr. hærri en þar að auki eru vísbendingar um að kostnaður við mönnun vakta í nýju kerfi sé vanáætlaður.
- Talning farþega í vögnum undanfarna mánuði bendir til að nýting fari batnandi, sem er ánægjuefni.
Ennfremur segir í bókun umhverfis- og mannvirkjaráðs:
Stefnt er að flutningi jöfnunarstöðvar að Glerártorgi á næstu 1-2 árum. Til að endurnýja vagnaflotann verði keyptir tveir rafknúnir strætisvagnar á næstu 2-3 árum og byggðir upp innviðir fyrir hleðslu þeirra. Mögulega þarf að kaupa í millitíðinni annan notaðan díselvagn til að brúa bilið. Ekki er nægilegt framboð á metani í landinu til að fjölga slíkum vögnum. Núverandi leiðakerfi verður lagað að stækkandi byggð svo sem í Móahverfi og Holtahverfi og einnig lagað að breyttum þörfum svo sem með auknum akstri við Sunnuhlíð, vegna nýrrar heislugæslustöðvar. Áfram verða kannaðir möguleikar á að flétta frístundaakstur barna inn í reglubundinn akstur strætisvagna eftir hádegi á virkum dögum. Jafnframt verði fylgst með þróun í almenningssamgöngum s.s. snjall- og deilisamgöngum.