13.nóvember - 20.nóvember - Tbl 46
Eyjaskeggjar undirbúa sig fyrir komur skemmtiferðaskipa
Um helgina var haldin vinnustofa í Hrísey um ýmsa möguleika sem felast í auknum komum skemmtiferðaskipa til eyjunnar. Til stendur að halda sambærilega málstofu í Grímsey innan tíðar en einnig hefur færst í aukana að skemmtiferðaskip leggi leið sína þangað. Greint er frá þessu á vef Akureyrarbæjar.
Tilgangur vinnustofunnar var að ræða áskoranir og tækifæri fyrir Hrísey sem áfangastað fyrir gesti skemmtiferðaskipa og setja saman grunn að leiðarvísi fyrir farþega sem koma í land í Hrísey.
Vinnustofan var samstarfsverkefni Ferðamálastofu og AECO sem eru alþjóðleg samtök minni skemmtiferðaskipa sem sigla um norðurslóðir. AECO vinnur að verkefninu með nokkrum höfnum á Íslandi, Noregi, Færeyjum og Grænlandi.
Vinnustofan var haldin í Hlein og tóku þátt fulltrúar Ferðamálafélagsins, hagsmunaaðila og hverfisráðsins. Unnið var útfrá leiðarvísum sem AECO hefur nú þegar látið gera fyrir nokkra áfangastaði skemmtiferðaskipa og er stefnt að því að klára þessa vinnu í vor en að henni koma auk AECO, íbúar Hríseyjar, Akureyrarhöfn og Akureyrarbær.