13.nóvember - 20.nóvember - Tbl 46
Akureyringar á meðal þeirra hamingjusömustu
Vestmannaeyjar, Akureyri og Eyjafjörður eru þau svæði sem koma best út í nýrri skoðanakönnun meðal íbúa landsins á búsetuskilyrðum, hamingju og viðhorfi til síns sveitarfélags. Þetta segir í tilkynningu frá Samtökum sveitarfélaga á Vesturlandi og greint er frá mbl.is. Að könnuninni stóðu landshlutasamtök sveitarfélaga á landinu ásamt Byggðastofnun. Niðurstöðurnar byggja á svörum frá 10.253 þátttakendum.
Í könnuninni var spurt um 40 búsetuþætti. Var þannig spurt um húsnæðismál, nettengingar, vöruverð, þjónustu við fatlaða og aldraða, skólamál og fleira. Efnisatriðin voru því fjölbreytt. Þættir á borð við friðsæld, náttúru og loftgæði fengu almennt nokkuð háar einkunnir.
Í Morgunblaðinu segist Ásthildur Sturludóttir, bæjarstjóri á Akureyri, alsæl með niðurstöðurnar og þær komi henni ekki á óvart. „Lífsgæðin hérna eru bara óskaplega góð. Hér er náttúrufegurð og mikil lífsgæði fólgin í því að þurfa ekki að vera lengi í umferð á morgnana. Stöðugt og gott atvinnulíf og mikið um að vera í þó ekki stærri bæ en Akureyri,“ sagði Ásthildur og bætti við: „Þetta er bara frábær staður til að búa á.“