20. nóvember - 27. nóvember - Tbl 47
Erlend skólabörn öttu kappi í ritlist
Í tilefni af degi íslenskrar tungu 2018 var efnt til ritlistarsamkeppni fyrir börn á Akureyri sem ekki hafa íslensku að móðurmáli. Verkefnið var samstarfsverkefni Háskólans á Akureyri, Akureyrarbæjar, Amtsbókasafnsins og KEA. Verðlaun í keppninni voru afhent við hátíðlega athöfn á Amtsbókasafninu þann 17. nóvember.
Alls bárust 19 textar í keppnina eftir 18 höfunda frá 11 löndum. Allir þátttakendur fengu íslenska bók að eigin vali og bíómiða en dómefnd verðlaunaði auk þess fimm áhugaverðustu textana. Aðalverðlaunin, vetrarkort í Hlíðarfjall, hlaut Jana Alkhatib frá Sýrlandi fyrir draugasögu. Jana er nemandi í 7. bekk Giljaskóla. Önnur verðlaun, leikhúsmiða á Gallsteina afa Gissa, fengu Olaf Gnidziejko frá Póllandi í 4. bekk Oddeyrarskóla, og Matiss Leo Meckl frá Lettlandi og Þýskalandi í 9. bekk Oddeyrarskóla.
Sérstök verðlaun fyrir 11-13 ára, viku í Vísindaskóla unga fólksins næsta sumar, hlutu Magdalena Sulova frá Tékklandi í 5. bekk Naustaskóla og Navaneethan Sathiya Moorthy frá Indlandi í 7. bekk Brekkuskóla. Markmiðið með ritlistarsamkeppninni var að hvetja börn sem ekki hafa íslensku að móðurmáli til að beita íslenskunni á skapandi hátt; að benda þeim á að íslenskan er ekki aðeins skólamál heldur mál sagna, ljóða og leikrita.