Erlend skólabörn öttu kappi í ritlist

Markmiðið með ritlistarsamkeppninni var að hvetja börn sem ekki hafa íslensku að móðurmáli til að be…
Markmiðið með ritlistarsamkeppninni var að hvetja börn sem ekki hafa íslensku að móðurmáli til að beita íslenskunni á skapandi hátt. Mynd/Skapti Hallgrímsson.

Í tilefni af degi íslenskrar tungu 2018 var efnt til ritlistarsamkeppni fyrir börn á Akureyri sem ekki hafa íslensku að móðurmáli. Verkefnið var samstarfsverkefni Háskólans á Akureyri, Akureyrarbæjar, Amtsbókasafnsins og KEA. Verðlaun í keppninni voru afhent við hátíðlega athöfn á Amtsbókasafninu þann 17. nóvember.

Alls bárust 19 textar í keppnina eftir 18 höfunda frá 11 löndum. Allir þátttakendur fengu íslenska bók að eigin vali og bíómiða en dómefnd verðlaunaði auk þess fimm áhugaverðustu textana. Aðalverðlaunin, vetrarkort í Hlíðarfjall, hlaut Jana Alkhatib frá Sýrlandi fyrir draugasögu. Jana er nemandi í 7. bekk Giljaskóla. Önnur verðlaun, leikhúsmiða á Gallsteina afa Gissa, fengu Olaf Gnidziejko frá Póllandi í 4. bekk Oddeyrarskóla, og Matiss Leo Meckl frá Lettlandi og Þýskalandi í 9. bekk Oddeyrarskóla.

Sérstök verðlaun fyrir 11-13 ára, viku í Vísindaskóla unga fólksins næsta sumar, hlutu Magdalena Sulova frá Tékklandi í 5. bekk Naustaskóla og Navaneethan Sathiya Moorthy frá Indlandi í 7. bekk Brekkuskóla. Markmiðið með ritlistarsamkeppninni var að hvetja börn sem ekki hafa íslensku að móðurmáli til að beita íslenskunni á skapandi hátt; að benda þeim á að íslenskan er ekki aðeins skólamál heldur mál sagna, ljóða og leikrita.

 

Nýjast