Enginn veit hvað átt hefur...
Sigurjón Pálsson skrifar
Verslunarmiðstöðvar verða til sem lausn á ákveðnu ástandi: hröðum vexti og nýrri úthverfamyndun borga og stærri bæja með þúsunda og tugþúsunda mannfjölgun á skömmum tíma. Þær leysa skortinn á dagvöru og helstu reglubundinni þjónustu í nærumhverfinu á þessum nýju búsetusvæðum. Þær verða því alltaf til vegna ástands - þarfar/eftirspurnar sem er til staðar í kringum þær - ekki öfugt.
Reynslan hefur sýnt að fylgifiskur útþenslunnar er sá að gamlir miðbæir borganna eiga til að staðna og eðli þeirra breytist þegar fjölbreytni mannlífsins þar minnkar.
AÐ BÚA TIL VANDA SEM EKKI VAR TIL
Því minni sem bæirnir eru þeim mun viðkvæmari eru þeir fyrir breytingunum.
Dæmi um þessa þróun í stærra samhenginu hérlendis, sl. hálfa öld, er hrörnun Laugavegar og miðbæjar Reykjavíkur með tilkomu Kringlunnar - sem enn er barist við að bæta.
Sömu þróun merkja Akureyringar eftir tilkomu Glerártorgs.
Svæsnustu afleiðingarnar eru þó miðbæjardauði litlu bæjanna sem út í það fóru að beina dagvöruverslunum og fleiri kjarnaverslunum og þjónustu úr miðbæjum út í jaðrana:
Akranes, Borgarnes, Blönduós, Sauðárkrókur - svo ferðast sé norður í huganum.
Á Akranesi hafa nú verið stofnuð íbúasamtök sem reyna að endurheimta einhvern vott af lífsmarki í dauðan miðbæ sinn.
Öllum er nú ljóst að engar forsendur voru fyrir því að skipuleggja miðstöð lykilverslana í útjaðri ekki stærri bæjar, sem allur teldist ekki einu sinni brot úr úthverfi í venjulegu samhengi þess orðs.
Það skipulagsslys gekk af miðbænum dauðum.
AÐ BÆTA ÚR ÞVÍ SEM EKKI VAR GOTT
Á Siglufirði var miðbæjarsvæðið endurskipulagt frá grunni, gömul hús endurbyggð og er nú dæmi um blómstrandi miðbæ með stóraukinni umferð ferðamanna, með hjálp samgöngubóta.
Á Selfossi þróaðist aldrei neinn miðbær en samþykkt var fyrir innan við áratug að ráðast í þróun og byggingu miðbæjar sem hefði tilvísun í íslenska byggingasögu og hefðir.
Þótt enn sé aðeins risinn einn þriðji fyrirhugaðs miðbæjar er árangurinn undraverður með blómstrandi verslun, þjónustu og mannlífi heimamanna og gesta, íslenskra sem erlendra.
Nú eru bæir um land allt farnir að kappkosta það að byggja upp miðbæi sína í stað þess að beina uppbyggingunni frá þeim.
Ef gúglað er: uppbygging, miðbær, koma þessi sveitarfélög upp:
Egilsstaðir, Kópavogur, Hafnarfjörður, Mosfellsbær, Garðabær, Akureyri, Selfoss/Árborg, Höfn, Siglufjörður, Borgarnes, Flúðir og Þorlákshöfn.
AÐ GREINA ÞANN VANDA RÉTT SEM LEYSA ÞARF
Á Húsavík, 2.500 manna smábæ sem staðið hefur í stað í hálfa öld hvað fólksfjölgun varðar, er úthverfamyndun engin enda skilgreining á úthverfi ekki ein eða tvær götur og nokkrir tugir íbúa.
Óbyggða svæðið sunnan við byggðina á Húsavík kallar því engan vegin á slíka bráða úthverfalausn á dagvöruþjónustu að hætti borga í útþenslu - því þar býr enginn!
Þjónustu sem þessa á að færa til íbúanna - ekki frá þeim, hvað þá hefta aðgengi annarra að henni en þeirra sem komast þangað í bíl.
Engin kæmi þangað fótgangandi svo þarna yrði paradís útvalinna; bíleigenda og bílanna þeirra.
Hvar er græni metnaður stjórnenda bæjarins og loftslags- og sjálfbærnimarkmiðin í þeirra stefnu?
AÐ LEYSA VANDA SEM EKKI ER TIL
Því skýtur það skökku við að farið sé nú fram á heimild til breytinga á aðalskipulagi Húsavíkur svo grípa megi til lausna sem þróuðust til að leysa brýnan skort á dagvörum og annarri lykilþjónustu í nýjum úthverfum borga í örum vexti þar sem þúsundir og tugþúsundir íbúa setjast að á skömmum tíma.
Þannig virðast menn ætla að ráðast í að leysa vanda sem ekki er til – og verður ekki næstu kynslóðir - og það með lausn sem sniðin er fyrir borgir en hefur reynst banabitinn í litlum bæjarfélögum eins og Húsavík.
Þegar gengið er á og spurt um ástæðurnar er borið við plássleysi í miðbæ Húsavíkur sem stenst engan veginn því í miðbænum er feykinóg pláss - eins og sýnt hefur verið fram á, m.a. með teikningum þar sem farið er eftir viðurkenndum alþjóðlegum stöðlum um aðkeyrslur aðfanga, enda þekkt um allan heim að stærri dagvöruverslanir en hér er fyrirhuguð séu við þrengri aðstæður en þarna eru, t.d. gömlum í miðborgum.
Hin ástæðan sem nefnd hefur verið er sú að miðaldra, fjölskyldufeður þurfi rúmt pláss fyrir fjölskyldubílinn í vikulegum stórkinnkaupum til fjölskyldunnar.
Samhengi samfélaga er þó stærra en það og óhjákvæmilega spyr maður sig þá hver verði staða þeirra sem veikara standa en miðaldra heimilisfeður á jeppum.
Hvað t.d. um bíllausa eldriborgara bæjarins, hreyfiskert fólk og þá sem taka grænar áskoranir alvarlega og vilja hvíla bílinn þegar ekki er hans þörf?
Smellið hér til að fara inn á skipulagsgáttina
AÐ KUNNA AÐ META KOSTINA
Í aðalskipulagi Húsavíkur er þegar búið - svo skynsamlega - að gera ráð fyrir þeim sem þannig standa í híbýlum Heilbrigðisstofnunarinnar í jaðri miðbæjarins - í þægilegu göngufæri við helstu þjónustu sem aðalskipulagið – svo eðlilega – kveður á um að haldið verði í miðbænum - og nýrri beint í hann! eins og þar segir.
Skipulagslega býr afar falleg hugsun þar að baki.
Vanhugsuð breyting á gildandi aðalskipulagi myndi slíta þá hugmynd úr því eðlilega framtíðarsamhengi sem aðalskipulagið kveður á um - og veitir um leið þessum íbúum bæjarins sem minnsta færni hafa, góða möguleika til að geta bjarga sér sjálfir um daglegar nauðsynjar og sækja sér félagsleg samskipti í leiðinni.
Einstök lega mikilvægrar grunnþjónustu: Heilbrigðisstofnun, með sínum búseturúrræðum og heilsuræktarþjónustu eldriborgara og fólks með skert hæfi, Sundlaugin með heita potta og böð og svo miðbærinn með alla þjónustu og félagsleg samskiptatækifæri, mynda þægilegan þríhyrning sem samtals er tæpur kílómetri - með leggjum sem eru um 250 til 400 metrar - hæfilegir jafnvel þeim sem minnstu getuna hafa.
Innbyrðis staðsetning þessara mikilvægu póla á Húsavík er öfundsverð og væri glapræði að rjúfa.
Gerðist það þyrftu verst settu íbúar bæjarins að reiða sig á aðra sér til bjargar með daglegar þarfir, svo fullfrískir jeppamenn komist aðeins nær búðardyrum dagvöruverslunarinnar utan við bæinn – einu sinni í viku!
Auka þyrfti því þjónustu, með ærnum tilkostnaði bæjarfélagsins, við fólk sem áður gat og vildi sjá um sig sjálft og sækja sér um leið daglega hreyfingu og félagslegt samneyti við aðra bæjarbúa á því aldursskeiði þegar slík samskipti fara minnkandi.
AÐ HALDA Í ÞAÐ SEM GOTT ER
Á meira en áratugs tímabili kom ég a.m.k. ársfjórðungslega til Húsavíkur og kynntist þá vel hve mikilvægt það er að þeim sem hafa skerta getu til sjálfsbjargar og félagslegra samskipta, sé gert kleift að bjarga sér eins lengi og þeim er það fært.
Mér er það minnisstætt að ætti ég leið niður í „kaupfélag“ þá mátti nánast ganga að því vísu að hitta Jóda í Kirkjubæ þar að fá sér kaffibolla við innganginn og gott ef Tóti í Jörva var ekki þar með honum oftar en ekki.
Þarna var hún lifandi komin og augljós, þörf þeirra sem lokið hafa starfsaldri til að viðhalda félagslegum samskiptum sínum, rölta þangað sem fólkið er - sýna sig og sjá aðra – kasta kveðju á gamla vini, segja sögu, spyrja tíðinda, njóta mannlífsins þar sem hringiða mannflórunnar er.
Þannig staðir eiga að vera í miðju hvers góðs samfélags – þaðan sem styst er úr öllum áttum og allir geta komist á - þurfa að komast á - hlakki til að koma á - allir sem um það eru færir, svo lengi sem þeir geta.
Þannig staður þarf miðbær Húsavíkur að vera - áfram.
Nútíma Helguskúr allra.
Hvorki Jóda né Tóta hefði ég fundið sunnan við Þorvaldsstaðaá, kallandi til mín svo notalega:
"Nei, þú hér! Hvað segir þú, vinur?"
Það þori ég að fullyrða.
______
Höfundur hvetur alla þá sem sammála eru honum að senda inn athugasemdir á Skipulagsgáttina eða skila henni inn á bæjarskrifstofurnar.