Skynsamleg ráðstöfun á skattfé á nýjum eða sama stað?

Mynd Hafþór
Mynd Hafþór

Skynsamleg ráðstöfun á skattfé á nýjum eða sama stað?

Það getur komið að þeim tímapunkti í lífi fólks að það þurfi meiri aðstoð en hægt er að veita í heimahúsi. Áður en óskað er eftir dvöl á hjúkrunarheimili þurfa öll önnur úrræði að vera fullreynd. Til þess að eiga kost á dvöl á hjúkrunarheimili þarf að sækja um færni- og heilsumat. Dvalarheimili aldraðra sf í Þingeyjarsýslum var formlega stofnað á Húsavík 8. janúar 1976. Stofnendur voru Húsavíkurbær ásamt 12 sveitarfélögum frá Ljósavatnshreppi að vestan til Raufarhafnarhrepps að austan. Fyrsta verkefni félagsins var bygging dvalarheimilis á Húsavík og var hafist handa 20. ágúst 1976. Fyrstu íbúar fluttu svo í Hvamm 2. maí 1981.

Dvalarrými verða hjúkrunarrými

Hvammur á Húsavík hefur í tímans rás breyst í hjúkrunarheimili og sveitarfélögin greitt umtalsverða fjármuni til að halda úti þeirri þjónustu í Þingeyjarsýslu. Hjúkrunarrými eru tvenns konar. Annars vegar eru rými sem ætluð eru einstaklingum sem þurfa að flytjast á hjúkrunarheimili til langframa. Þeim er tryggð búseta þar til æviloka nema heilsufarslegar eða persónulegar aðstæður breytist og bjóði annað. Hins vegar eru rými til tímabundinnar dvalar sem ætluð eru einstaklingum sem þurfa hvíldarinnlögn eða endurhæfingu með það að markmiði að geta flutt heim aftur. Í lögum um heilbrigðisþjónustu er skýrt kveðið á um ábyrgð ríkisvaldsins á rekstri hjúkrunarheimila og hjúkrunarrýma.

Ágreiningur um rekstur hjúkrunarþjónustu

Heilbrigðisstofnun Norðurlands rekur hjúkrunarþjónustu í Hvammi, húsnæði í eigu Norðurþings, Tjörneshrepps og Þingeyjarsveitar. Þörfin fyrir hjúkrunarrými ætti að vera öllum ljós. Í meira en áratug hefur umræða verið um byggingu nýs hjúkrunarheimilis í Þingeyjarsýslum, á Húsavík til að mæta þeim þörfum sem hjúkrunarþjónusta útheimtir enda húsnæðið Hvamms hannað og byggt til annars en það gerir í dag. Á undanförnum árum hefur verið uppi ágreiningur milli ríkis og sveitarfélaga um fjármögnun og rekstur hjúkrunarheimila. Nokkur sveitarfélög hafa skilað rekstrinum til ríksins. Hér í Þingeyjarsýslum rekur Heilbrigðisstofnun Norðurlands hjúkrunarheimilið á Húsavík, ber ábyrgð á rekstri þess og mun gera áfram.

Byggingarkostnaður hjúkrunarheimila

Sumarið 2022 var skipaður starfshópur á vegum heilbrigðisráðherra með það hlutverk að greina eignarhald og fjármögnun á húsnæði hjúkrunarheimila. Farið var yfir eignarhald á hverju heimili auk framlags til viðhalds og endurbóta á einstaka heimili. Af byggingarkostnaði hjúkrunarheimila greiðir ríkissjóður 85% og sveitarfélög 15% auk þess að sveitarfélögunum ber að útvega lóð undir byggingar að kostnaðarlausu. Í skýrslunni er enn frekar hnykkt á því að ríkissjóður ber einn ábyrgð á veitingu þjónustunnar.

Í kjölfar niðurstöðu starfshópsins var skipaður vinnuhópur á vegum fjármála- og efnahagsráðuneytis og heilbrigðisráðuneytis til að vinna að sameiginlegri útfærslu á breyttu fyrirkomulagi fasteignamála hjúkrunarheimila og gera tillögu að nauðsynlegum lagabreytingum í kjölfarið. Í skýrslu vinnuhópsins er kveðið á um sveitarfélögin verða leyst undan skyldum sínum um sama efni og framkvæmdasjóður aldraðra verður lagður niður.

Ráðstöfun á skattfé almennings

Farið var í hönnunarsamkeppni um byggingu nýs hjúkrunarheimilis á Húsavík. Búið er að grafa fyrir grunni þess. Ekkert tilboð barst í byggingu heimilisins innan tilskilins frest í verkið. Kostnaður við verkefnið, eins og það blasir við okkur, væri óskynsamleg ráðstöfun á skattfé. En meginmarkmið með nýju fasteignafyrirkomulagi hjúkrunarheimila er m.a. að auka hagkvæmni og framkvæmdahraða vegna fjárfestinga þannig að aðstaða sé til staðar í samræmi við þjónustuþörf hverju sinni, auka sveigjanleika og sérhæfingu við byggingu og rekstur hjúkrunarheimila. Sömuleiðis að tryggja að fjármunir séu til staðar til að hægt sé að ráðast í nauðsynlegt viðhald og endurbætur og koma í veg fyrir viðhaldsskuld. En almennt gert er ráð fyrir að rekstraraðili hjúkrunarheimilis og eigandi húsnæðis séu sitthvor aðilinn.

Sem minnstar tafir

Æskilegt er að aldraðir eigi kost á hjúkrunarþjónustu í sinni heimabyggð. Húsavík er kjarni þessarar þjónustu. Því þarf að tryggja að tafir og seinkun á uppbyggingu nýs hjúkrunarheimilis á Húsavík verði sem allra minnstar. Nú þarf að hafa hraðar hendur og vanda sig. Verkefnið þarf að hugsa upp á nýtt með nýjum útfærslum.

Hjálmar Bogi Hafliðason

Forseti sveitarstjórnar Norðurþings

 

Nýjast