Enginn svikinn af Sex í sveit
Egill P. Egilsson skrifar
Einn af helstu kostunum við það að búa á Húsavík er menningarlífið í bænum sem hefur í áranna rás verið mjög blómlegt. Fyrir mitt leyti er Leikfélag Húsavíkur toppurinn á ísjakanum að öðrum ólöstuðum. Það eru einfaldlega ótrúlega forréttindi að hafa aðgang að jafn öflugu leikfélagi og LH í ekki stærra bæjarfélagi en Húsavík og það er mitt „hlutlausa“ mat að við Húsavíkingar getum státað af einu af allra öflugusta áhugaleikfélagi landsins. Þessi gróska og ótrúlega fórnfýsi allra sjálfboðaliðinna sem á hverju ári setja upp leiksýningar, hverri annarri glæsilegri í gamla en dásamlega Samkomuhúsinu okkar er allt annað en sjálfsögð og hún hefur líka margfeldisáhrif.
Þannig hefur sprottið upp sú hefð að á hverju ári setur útskriftarárgangur Borgarhólsskóla upp veglega leiksýningu og um árabil hefur leikfélag Framhaldsskólans á Húsavík, Píramus og Þispa gert það sama. Samkomuhúsið, þótt komið sé til ára sinna iðar því af lífi mest allan veturinn og það gæti ekki verið dýrmætara í skammdeginu.
Frábær þýðing Gísla Rúnars
Um þessar mundir standa yfir sýningar LH á farsanum „Sex í sveit“ eftir Marc Camoletti í leikstjórn Valgeirs Skagfjörð. Það er enginn annar en Gísli Rúnar Jónsson sem íslenskaði leiktextann og eins og allt sem hann kom nálægt er það gert með tilþrifum.
Verkið fjallar um hjónakornin Benedikt og Þórunni sem skella sér í sumarbústað í Eyjafirði, bæði með sitt leyndarmálið í farteskinu. Benedikt hugsar sér gott til glóðarinnar þegar eiginkonan hyggur á heimsókn til móður sinnar og býður bæði viðhaldinu og vini sínum til veislu. Allt gengur samkvæmt áætlun þar til eiginkonan ákveður að vera um kyrrt. Þá hitnar í kolunum og þegar veisluþjónustan bætist í hópinn ætlar allt um koll að keyra. Verkið fjallar um ást í meinum, lygar á lygar ofan og tilþrifamikinn misskilning þar sem flækjustigið verður sífellt flóknara og um leið spaugilegra.
Vel heppnuð frumsýning
Ég skellti mér á frumsýningu á laugardag sl. en frumsýningum fylgir alltaf viss hátíðleiki. Það er ekki bara að maður finni fyrir eftirvæntingu áhorfendanna í kringum sig þegar tjöldin eru dregin frá, maður finnur fyrir tilfinningum leikaranna sem eru mættir til að skemmta okkur áhorfendum. Maður lifir sig inn í stressið sem fylgir því að segja sínar fyrstu línur og finnur svo glöggt fyrir léttinum þegar þau loks fá að stíga inn á sviðið í fyrsta sinn fyrir fullum sal áhorfenda.
Skilar því sem er lofað og gott betur
Verkið er farsi og áhorfendur gera því kröfu um að það sé fyndið. Sama hversu vel leikarar eru undirbúnir er þó aldrei hægt að vera viss um viðbrögð áhorfenda. Hvað ef áhorfendum finnst þetta bara alls ekki fyndið, það hlýtur að vera hræðileg upplifun að flytja heilt gamanleikrit fyrir áhorfendur og uppskera engan hlátur. Það þarf því bísna af hugrekki til að stíga á svið í þessum tilgangi.
Blessunarlega var uppskeran góð á frumsýningu á Sex í sveit. Eftir um það bil 90 sekúndur brustu flóðgáttirnar og hlátursköllin þögnuðu ekki eftir það.
Benóný Valur Jakobsson, Kolbún Ada Gunnarsdóttir, Friðrika Bóel, Valgeir Sigurðsson, Mikael Þorsteinsson og Bergdís Björk Jóhannsdóttir fara með hlutverkin í verkinu og leysa það öll mjög fagmannlega. Ekki má gleyma sviðsmyndinni sem er afar vel heppnuð.
Það er óhætt að óska Leikfélagi Húsavíkur, leikurum, leikstjóra og öllum þeim fjölda fólks sem stendur vaktina á bak við tjöldin innilega til hamingju með þess stórkostlegu sýningu.
Sex í sveit er stórkostleg skemmtun sem engin ætti að láta framhjá sér fara.