13.nóvember - 20.nóvember - Tbl 46
Hertar sóttvarnir í skólum
Viðbrögð við Covid-smitum í skólum Akureyrarbæjar voru til umræðu á síðasta fundi fræðsluráðs. Þar lýsti fræðsluráð yfir fullum stuðningi við þær sóttvarnaaðgerðir sem gripið hefur verið til í skólum Akureyrarbæjar og segir í bókun að starfsfólk eigi miklar þakkir skilið fyrir fumlaus viðbrögð og starfshætti sem sé lykillinn að þeim góða árangri sem náðst hefur.
Fjögur tilvik hafa komið upp á stuttum tíma í leik-og grunnskólum Akureyrar þar sem smit hefur greinst og í þremur tilvikum hefur þurft að loka skólum eða hluta skóla í nokkra daga. Stjórnandi í Lundarskóla greindist með smit fyrr í haust og þurfti að loka skólanum í þrjá daga hjá nemendum 1.-6. bekkjar. Nemandi á miðstigi í Oddeyrarskóla greindist með smit skömmu fyrir vetrarfrí og var skólanum lokað í tvo daga. Þá var leikskóladeildinni í Árholti lokað um tíma vegna smits hjá barni í byrjun mánaðar. Nú síðast greindist starfsmaður Síðuskóla með smit og mun starfsfólk frístundar og þau börn sem þar voru þá tvo daga sem starfsmaðurinn var smitandi verða í sóttkví í fimm daga.
Skólar hólfaðir niður og nota þarf grímu
Karl Frímannsson, fræðslustjóri hjá Akureyrarbæ, segir í samtali við Vikublaðið að vel hafi gengið að takast á við þessar aðstæður. „Við búum það vel að hafa fengið góðar leiðbeiningar frá sóttvarnaryfirvöldum að verklagið er orðið gott. Við förum alfarið eftir tilmælum rakningarteymisins og eigum þétt og náið samstarf við þau þótt ekki sé alltaf full sátt um ákvarðanir sem teknar eru. Með þeim hætti hefur okkur tekist að leysa úr þessu,“ segir Karl.
Karl Frímannsson fræðslustjóri Akureyrarbæjar
Sóttvarnaaðgerðir í leik- og grunnskólum Akureyrarbæjar voru teknar til endurskoðunar í síðustu viku í ljósi þess að smitum var að fjölga í samfélaginu. Meðal annars hefur verið gripið til þess að hólfa skólana niður útfrá starfsfólki og ef starfsfólk fer á milli hólfa þarf það að nota grímu. Allir sem þurfa að koma inn í skólana, t.a.m. foreldrar og forráðarmenn, þurfa að nota grímu. „Við stígum öll þau skref sem við þurfum til að halda úti leik-og grunnskólastarfi og starfi tónlistarskólans,“ segir Karl.
Krefjandi vetur framundan
Hann segir ljóst að strembinn vetur sé framundan. „Það er óhætt að segja að þetta séu krefjandi tímar en við búum vel að því að hafa gott starfsfólk sem sýnt hefur bæði vönduð og yfirveguð vinnubrögð við þessar aðstæður síðustu átta mánuði. Nú er unnið að því að koma á stöðugleika í sóttvarnaaðgerðir sem gilda allt skólaárið og að við séum ekki að sveiflast til og frá með þær ákvarðanir. Það getur valdið óþarfa óvissu. Með góðu og stöðugu verklagi getum við haldið okkar striki í skólastarfi þó svo að smit komi upp.“