Eldflaug skotið á loft frá Langanesi á morgun ef veður leyfir
Til stóð að Eldflaug skoska fyrirtækisins Skyrora yrði skotið á loft frá Langanesi í morgun en ákvörðun var tekin um að fresta skotinu vegna hvassviðris eftir að veðurbelgur var sendur upp snemma í morgun til að kanna aðstæður. Atli Thor Fanndal, yfirmaður Geimvísinda- og tækniskrifstofunnar sagði í samtali við Rúv að reynt yrði aftur á morgun.
Skyrora þróar og smíðar eldflaugar sem ætlað er að ferja gervihnetti út í geim og skotið í morgun átti að vera tilraunaskot og liður í prófunum eins og greint var frá í Vikublaðinu fyrir skemmstu
Of hvasst er á svæðinu til að hægt sé að skjóta flauginni að sögn Atli Þórs Fanndal hjá Geimvísinda- og tækniskrifstofunni og var ákvörðun um að fresta skotinu tekin eftir að veðurbelgur var sendur upp snemma í morgun til að kanna aðstæður.
Upphaflega var áætlað að skjóta eldflauginni á loft á miðvikudag en veður kom einnig í veg fyrir það þá. Var þá brugðið á það ráð að bjóða skólabörnum af Langanesi á skotstað og fengu þau fræðslu um starfsemi Skyrora og verkefni þeirra á Langanesi.
„Kynningarnar gengu vel og var það alveg hreint frábært að sjá hvað krakkarnir höfðu mikinn áhuga á verkefninu, enda mikilvægt að vekja upp áhuga komandi kynslóða á geimvísindum og tækni.
Atli Thor Fanndal, yfirmaður Geimvísinda- og tækniskrifstofunnar fékk það skemmtilega hlutverk að þýða frá ensku yfir á íslensku fyrir þau börn sem óskuðu eftir og svara þeim ótrúlega fjölda spurninga sem börnin höfðu. Hann hafði orð á því á starfsmannafundi í gærkvöldi að spjallið við krakkana með tækniteymi Skyrora sé hápunkturinn af stússi skrifstofunnar í kringum tilraunaskotið,“ segir í tilkynningu á Facebooksíðu Geimsvísinda- og tækniskrifstofu Íslands.