Ekki í takt við nýjan breyttan raunveruleika

Gunnar Rúnar Ólafsson slökkviliðsstjóri í Slökkviliði Akureyrar
Gunnar Rúnar Ólafsson slökkviliðsstjóri í Slökkviliði Akureyrar

„Að okkar mati er útboðið sjálft ekki í tak við þann raunveruleika sem blasir við okkur í sjúkrafluginu,“ segir Gunnar Rúnar Ólafsson slökkviliðsstjóri í Slökkviliði Akureyrar um samning um sjúkraflug en það var boðið út fyrr á þessu ári. Tvö tilboð bárust, frá Mýflugi sem annast hefur flugið um árabil og Norlandair. Tilboð þess síðarnefnda var 10% lægra en kostnaðaráætlun og var því tekið. Samningurinn kemur til framkvæmda um næstu ármót.

Gunnar Rúnar segir að ekki sé ágreiningur um hvort flugfélagið hafi fengið samninginn, heldur snúist hann um ágalla í sjálfu útboðinu. Hvorki hefði verið leitað álits hjá Slökkviliði né Sjúkrahúsinu á Akureyri, en starfsfólk frá þessum stofnunum taki þátt í sjúkrafluginu og hafi af því mikla reynslu.

Úr 400 ferðum í 1000 á ári

„Það hefur orðið gríðarleg aukning í sjúkraflugi á liðnum árum og stefnir í að þau verði um 1000 á ári. Þegar síðasti samningur um sjúkraflug var gerður voru þau um 400 á ári að meðaltali. Þessi mikla aukning endurspeglast hvergi í nýja útboðinu,“ segir hann. Hvert flug tekur að meðaltali um 3,6 klukkustundir, þannig að ljóst er að í þau fara margar vinnustundir. Starfshópur hefur verið settur saman til að fara yfir málin m.a. er verið að leita eftir því að ríkið skilgreini betur hluti sem snúa að þjónustu í sjúkrafluginu.

Hann nefnir einnig að slökkvilið hefði sé um flotastýringu varðandi sjúkraflugið, þ.e. skipuleggi það en á stundum þurfi að fara á fleiri en einn stað og ná í fleiri sjúklinga ef það hentar. „Við erum með þetta á okkur könnu  en það hefur aldrei verið samið við okkur um það verkefni. Okkur hefði þótt vel við hæfi að taka þessi atriði og fleiri inn í nýtt útboð,“ segir hann.

Breytt landslag

Loks nefnir hann að samkvæmt útboði þurfi sjúkraflugvél að vera til taks á ákveðnum tímum, en geti sinnt öðrum verkefnum á milli þess sem ekki þarf að fara í sjúkraflug. Nefnir slökkviliðsstjóri að það setji þjónustu í uppnám, sjúkraflug séu mjög tíð og vél þurfi ávallt að vera til taks. Þá hafi heldur ekki komið fram hver eigi að taka búnað úr vélum og setja inn í þær aftur, en slík vinna sé talverð. „Það er mikil umsýsla í kringum búnaðinn og getur orðið býsna snúið að vera sí og æ að taka hann úr vélum ef nýta á þær í önnur verkefni og setja inn á ný. Það hefur heldur ekki verið samið um hver eigi að annast það verkefni,“ segir hann en starfsmenn slökkvilið hafa annast viðhald og yfirferð búnaðarins. Einnig án þess að um það hafi verið samið.

 „Landslagið í sjúkrafluginu er mikið breytt frá því sem var en að okkur mati er ekki tekið tillit til þess í útboðinu,“ segir hann. Verið sé að ræða málin og vonar hann að hagstæð niðurstaða liggi fyrir innan tíðar.

 Mikil aukning hefur orðið í sjúkraflugi undanfarin ár, þau voru að jafnaði um 400 þegar sjúkraflug var síðast boðið út en stefna óðum að því að verða um 1000 á ári. 

Nýjast