Ekki í boði að færa rusl frá einum stað og yfir á annan

Ekki gæfuleg umgengni.
Ekki gæfuleg umgengni.

Ruslahaugur verður aldrei neitt annað en ruslahaugur, hvort sem hann er staðsettur í Hörgársveit eða á Akureyri,“ segir Leifur Þorkelsson framkvæmdastjóri Heilbrigðiseftirlits Norðurlands eystra. Heilbrigðisnefnd hefur bent á að talsvert af lausamunum hafi verið safnað saman á lóð á Moldhaugnahálsi í Hörgársveit. Sama fyrirtæki, Skútabergi hefur verið gert að bæta úr umgengni á lóð við Sjafnarnes á Akureyri.

Vinna stendur yfir við gerð aðal- og deiliskipulags á Moldhaugnahálsi í Hörgársveit. Tillögur sem liggja fyrir gera ráð fyrir margháttaðri starfsemi á hálsinum. Meðal annars verður þar geymslusvæði, ferðaþjónusta, starfsmannabúðir og steypustöð. 

Fram kemur í bókun fundar Heilbrigðisnefnd að Skipulagsráð Akureyrarbæjar hafi veitt fyrirtækinu þriggja mánaða frest til að bæta úr umgengni á lóð sinni við Sjafnarnes á Akureyri, að öðru kosti verið dagsektir lagðar á. Lóðarhafar hafi sagt ástæðu fyrir slæmri umgengni á Akureyri þá að skipulagsvinna sem standi yfir fyrir geymslusvæði í Hörgársveit og hafi dregist úr hófi.

Vandamálið flutt frá einum stað til annars

Leifur segir nefndina óttast að með skipulagningu og gerð geymslusvæðis á Moldhaugnahálsi sé einungis verið flytja vandamálið frá einum stað til annar. Það ætti ekki að vera valkostur í stöðunni. Nú þegar hafi talsvert af lausamunum verið safnað upp á hálsinum og umgengni um svæðið sé lóðarhöfum til lítils sóma. Heilbrigðisnefnd bendir á mikilvægi þess að í deiliskipulagi komi fram skýrir skilmálar varðandi umgengni á svæðinu, ekki síst innan geymslusvæðisins.

„Skipulagið sem verið er að vinna að á Moldhaugnahálsi gerir ráð fyrir margþættri starfsemi á svæðinu, m.a. ferðaþjónustu og geymslusvæði. Það er ekki síst þetta geymslusvæði sem við höfum áhyggjur af og þá ekki síst í ljósi þess að fram hefur komið að flytja eigi lausamuni frá Sjafnarnesi yfir á Moldhaugnaháls. Það er alls ekki í boði að flytja rusl frá einu stað og yfir á annan,“ segir Leifur en þegar hefur all miklu drasli verið safnað upp á hálsinum og umgengnin ekki til sóma að sögn heilbrigðifulltrúa.

„Ég held að það sé afar mikilvægt að vandað verði til verka varðandi þetta fyrirhugaða geymslusvæði. Tryggja þarf að ekki verði fluttir inná svæðið hlutir sem hafa takmarkað eða ekkert varðveislugildi og að ástand þeirra hluta sem þar eru geymdir valdi ekki mengun í umhverfið. Það er alveg ljóst að stór hluti þeirra muna sem eru á lóðinni í Sjafnarnesi eiga ekkert erindi á geymslusvæði á Moldhaugnahálsi,“ segir Leifur.

Nýjast