Ekki ástæða til að ógilda ákvörðun
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála hefur hafnað kröfu eigenda hússins við Krákustíg 1 um að ógilda ákvörðun skipulagsráðs Akureyrarbæjar frá því í febrúar síðastliðnum vegna breytinga á deiliskipulagi á Norður-Brekku vegna breytinga á lóðamörkum Krákustígs 1. Deilt var um lögmæti ákvörðunar skipulagsráðs bæjarins, en breyting á deiliskipulagi fól í sér breytingu á lóðamörkum við umrætt hús og aðgengi frá lóð við Krabbastíg 4 að Krákustíg.
Áður en hin kærða ákvörðun um breytt deiliskipulag var tekin óskuðu bæði eigandi Krákustígs 1 og eigendur Krabbastígs 4 eftir stækkun lóða sinna um sama tiltekna skikann sem tilheyrir bæjarlandi Akureyrar. Í kjölfar grenndarkynninga var báðum erindunum synjað og í kjölfarið grenndarkynnt ný tillaga að breyttu deiliskipulagi þar sem lóðarmörk Krákustígs 1 eru færð til og umræddur skiki stækkaður að lóð Krabbastígs 4 með því að minnka lóð Krákustígs 1 um tæpa 36 m2. Í bréfi vegna grenndarkynningarinnar kom fram að breytingin væri gerð til að afmarka aðgengi að lóð Krabbastígs 4 um bæjarland. „Verður að telja að efnisleg rök hafi búið að baki ákvörðun sveitarfélagsins að afmarka aðkomu íbúa Krabbastígs 4b um bæjarland enda virðist umrædd aðkoma hafa verið notuð um árabil,“ segir í úrskurði nefndarinnar.
Hún fjallar einnig um lóðaleigusamninga, og getur þess að aldrei hafi verið gerður sérstakur lóðaleigusamningur vegna Krákustígs 1, en kærendur halda því fram að slíkur samningur hafi stofnast þar sem Akureyrarbær hafi innheimt lóðaleigu frá árinu 1957. Samkvæmt almennum reglum leiguréttar hafi með því stofnast lóðarleigusamningur og eigi kærandi því fullgild lóðaréttindi yfir lóðinni.
„Ágreiningur um bein eða óbein eignarréttindi eða um efni þinglýstra réttinda verður ekki til lykta leiddur fyrir úrskurðarnefndinni heldur eftir atvikum dómstólum. Verður því í máli þessu ekki tekin afstaða til ágreinings sem kann að stafa af óvissu um tilvist lóðarleigusamnings eða hvort slíkur samningur hafi stofnast fyrir hefð eða á grundvelli almennra reglna leiguréttar. Þá ber þess að geta að deiliskipulag felur ekki í sér ráðstöfun beinna eða óbeinna eignarréttinda, svo sem lóðaréttinda, sem byggjast á einkaréttarlegum samningum, ýmist um kaup á eignarlandi eða um leigu lóðaréttinda. Þinglýstar heimildir um lóðaréttindi, hvort sem um eignarland eða leigulóð er að ræða, eru stofnskjöl slíkra réttinda,“ segir í úrskurði nefndarinnar og að hin kærða ákvörðun sé ekki haldin þeim form- eða efnisannmörkum sem leitt geti til ógildingar hennar. Kröfu um ógildingu verði því hafnað.
Vakin er athygli á að geti kærendur sýnt fram á fjártjón vegna hinnar kærðu deiliskipulagsbreytingar geta þeir eftir atvikum átt rétt á bótum af þeim sökum.