20. nóvember - 27. nóvember - Tbl 47
Einn hitaveituleki fannst við gamlan brunn á Oddeyri
Leit að leka í hitaveitukerfum Norðurorku fór fram dagana 17.-19. október á hluta Akureyrar og á Ólafsfirði. Lekaleitin, sem fram fór með drónum, vakti talsverða athygli en niðurstöður liggja nú fyrir frá umhverfisverkfræðistofunni ReSource International, sem framkvæmdi lekaleitina fyrir hönd Norðurorku og greint er frá á vefsíðu félagsins.
Í ljós komu nokkrir blettir á Ólafsfirði sem skoða þurfti betur með tilliti til þess hvort um væri að ræða leka eða illa einangraðar lagnir. Hvað Akureyri varðar þá var Eyrin norður að Glerá mynduð og aðeins fannst einn afgerandi staður (gamall hitaveitubrunnur) þar sem gæti leynst leki að öðru leiti virðist kerfið á Eyrinni vera í góðu standi sem er ánægjulegt þar sem um er að ræða kerfi sem er í grunninn frá því um 1980. Nú er okkar fólk búið að skoða þennan eina blett niðri á Eyri og ljóst er að leki er í umræddum brunni og var það eini hitaveitulekinn sem fannst. Verkefnið heppnaðist því vel og Norðurorka þakkar íbúum á Akureyri og Ólafsfirði tilsýndan skilning og þolinmæði.
Hitaveitubrunnar smám saman lagðir af
Þess má geta að eitt af stóru viðhaldsverkefnum Norðurorku er einmitt að fjarlægja gamla brunna úr kerfinu og bæta þannig afhendingaröryggi, vinnuaðstæður og öryggi starfsfólks. Umræddir hitaveitubrunnar eru steinsteypt jarðhýsi þar sem ýmsar tengingar lagna koma saman. Með breyttri tækni og fjölbreyttari efnum eru þessir brunnar orðnir úreltir og gera langtíma áætlanir Norðurorku ráð fyrir því að brunnarnir verði lagðir af með tíð og tíma.