Eina rannsóknastofnun sinnar tegundar á landsbyggðinni

Háskólinn á Akureyri
Háskólinn á Akureyri

Rannsóknamiðstöð Háskólans á Akureyri – RHA - er í eigu Háskólans á Akureyri en er með sjálfstæðan rekstur og fjárhag. Á vegum hennar fara fram fjölbreyttar rannsóknir og þjónusta. Starfsmenn hafa verið um 10 talsins undanfarin misseri og hafa þeir fjölbreytta menntun og reynslu. Í gegnum tíðina hefur menntunarbakgrunnur á sviði félagsvísinda og hugvísinda þó verið algengastur meðal starfsmanna sem þá aftur hefur að sjálfsögðu áhrif á hvaða verkefnum er sinnt hverju sinni. Einnig vinna oft akademískir starfsmenn háskólans með starfsmönnum RHA að einstökum rannsóknarverkefnum og þannig breikkar mjög sá þekkingargrunnur sem stofnunin hefur yfir að ráða hverju sinni.

Áhersla lögð á mál landsbyggðarinnar

RHA verður 30 ára á næsta ári og hafa áherslur í rannsóknum verið mjög fjölbreyttar gegnum tíðina. Frá upphafi hefur verið lögð mikil áhersla á að  sinna þörfum samfélagsins í víðum skilningi. Þannig myndar stofnunin á ýmsan hátt brú á milli háskólans, opinberrar stjórnsýslu og atvinnulífsins.  Í raun hefur það bæði farið eftir því hverju þjónustuaðilar í samfélaginu hafa kallað eftir svo og menntun og áhugasviði þeirra sem starfað hafa við stofnunina. Vegna staðsetningar sinnar á Akureyri og þar með á landsbyggðinni hafa áherslur þó gjarnan tengst byggð og atvinnulífi landsbyggðarinnar. Þannig er sjónarhornið á rannsóknirnar oft annað en hjá sambærilegum stofnunum á höfuðborgarsvæðinu.

Segja má að stofnunin hafi verið einskonar útungunarstöð fyrir ýmsa starfsemi sem háskólinn hefur þróað gegnum tíðina. Þannig hófst starfsemi Símenntunar HA inn veggja RHA og sama gildir m.a. um Miðstöð skólaþróunar. Stærsti viðskiptavinur stofnunarinnar er í raun Háskólinn á Akureyri.

Fjölbreytt rannsóknarverkefni á döfinni

Dæmi um rannsóknarverkefni sem hafa verið á döfinni og eru í gangi má nefna verkefni um borgarhlutverk Akureyrar fyrir SSNE og Sveitarstjórnarráðuneytið, samfélags- og efnahagslegt mat allra jarðganga sem eru á áætlun fyrir Vegagerðina, mat á áhrifum Blöndulínu þrjú á samfélag og ferðaþjónustu fyrir Landsnet, verkefni styrkt af Jafnréttissjóði um stöðu kvenna á vinnumarkaði og loks má nefna nýlega könnun á fylgi flokkanna, fjölmiðlanotkun og fleira sem tengist kosningahegðun í aðdraganda Alþingiskosninga. Hvað varðar þjónustuverkefni fyrir Háskólann á Akureyri má nefna Vísindaskóla unga fólksins sem fer fram í júní á hverju ári og þar sem börn á aldrinum 11-13 fræðast um fjölbreytt málefni sem ber hátt í samfélaginu hverju sinni.

Nýjast