13.nóvember - 20.nóvember - Tbl 46
„Ég ætla að einbeita mér að því sem ég er að gera hér heima í bili“
Kjördæmaráð Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi hefur ákveðið að prófkjör fari fram laugardaginn 29. maí þar sem valið verður í fimm efstu sætin, en kjörnefnd verður falið að gera tillögu um skipan listans að öðru leyti.
Kristján Þór Júlíusson, sem hefur leitt lista flokksins í NA-kjördæmi frá árinu 2007, tilkynnti um helgina að hann muni ekki bjóða sig fram.
Þegar hafa tveir aðilar líst því yfir að þegar sækjast eftir oddvitasætinu, þeir Njáll Trausti Friðbertsson þingmaður flokksins og Gauti Jóhannesson forseti sveitarstjórnar Múlaþings.
Gunnar Hnefill Örlygsson, nemi frá Húsavík hefur gefið út að hann sækist eftir 3. sæti á lista Sjálfstæðisflokks í Norðurlandskjördæmi eystra fyrir komandi alþingiskosningar.
Annar Húsvíkingur hefur lengi verið orðaður við baráttu um efstu sætin í kjördæminu en það er Kristján Þór Magnússon, sveitarstjóri Norðurþings sem hefur m.a. verið kallaður vonarstjarna Sjálfstæðisflokksins í fjölmiðlum.
Kristján Þór, staðfesti þó í samtali við Vikublaðið að hann hyggist ekki gefa kost á sér á lista flokksins að þessu sinni. „Ég mun ekki bjóða mig fram í komandi alþingiskosningum,“ segir Kristján afdráttarlaust en viðurkennir að hann hafi leitt hugann að því. „Ég hef alveg fundið fyrir því að nafnið mitt hefur verið í pottinum en að lokum tekur maður þessa ákvörðun sjálfur. Ég ætla að einbeita mér að því sem ég er að gera hér heima í bili.“
/þev
/epe