Hótel Akureyri: Glæsileg hús með einstaka sögu
„Stækkun hótelsins hefur verið á teikniborðinu í nokkur ár,“ segir Daníel Smárason eigandi Hótels Akureyrar þar sem stórhuga framkvæmdir eru fyrirhugaðar á næstu misserum.
Hótelið er nú í húsi við Hafnarstræti 67 – 69, Skjaldborg eins og það heitir. Því húsi standa líka yfir framkvæmdir, þar verður ný móttaka, kaffibar og 52 herbergi og segir hann að ætlunin sé að starfsemi verði hafin þar fyrir jól.
Hins vegar er ætlunin að byggja sams konar hús á lóð númer 75 við Hafnarstræti og segir Daníel að endanlega stærð þess húss og fjöldi herberga sé ekki endanlega ákveðin.
„Uppbygging á nýjum miðbæ á Akureyri er farin að taka á sig mynd og við erum afar spennt yfir því að geta verið kyndilberar klassískra sjónarmiða hvað varðar útlit og hönnun í þessum nýja parti miðbæjarins,“ segir Daníel. „Húsin okkar eru glæsileg og eiga sér einstaka sögu sem við ætlum okkur að varðveita. Þar af leiðandi viljum við að nýbyggingarnar sem rísa senn verði í takti við þær, en hækki þjónustustig bæði fyrir heimamenn og gesti.“
Framtíðin er björt á Akureyri
Hann segir að varðandi uppbyggingu hjá Hótel Akureyri sé horft til lengri tíma, frekar en að hlaupa af stað á stundinni. „Komuspár ferðamanna líta vel út, bærinn iðar af lífi og er vinsæll áfangastaður bæði meðal Íslendinga og erlendra ferðamanna. Framtíðin er björt á Akureyri.“
Skipulagsráð Akureyrar hefur tekið jákvætt í að erindi um umsækjenda verði heimilt að leggja fram tillögu að breytingu á deiliskipulagi Drottningarbrautarreits.