13.nóvember - 20.nóvember - Tbl 46
Dalbæingar spá mildum febrúar
Veðurklúbbur Dalbæjar á Dalvík kom saman til fundar í gær og spáði í veðurhorfur í febrúar.
Niðurstaðan var sú að staðbundna veðrið verður áfram milt þrátt fyrir frost.
„Á fundi Veðurklúbbsins í [gær] varð okkur ljóst að áframhald verður á þeim mildu veðrum sem hafa leikið við okkur hérna á Dalvík síðan síðastliðið sumar þó hitastigið hafi núna breyst yfir í frost og sú úrkoma sem fellur verði því nánast bara í sínu fallega fasta hvíta formi,“ var ritað í fundargerð.
Veðurspá Dalbæinga er ekki alveg jafn hliðholl öðrum landshlutum en klúbbmeðlimir voru með góð ráð fyrir aðra landsmenn. „En eins og áður hefur komið fram í spám okkar þá verða veður annarsstaðar á landinu því miður ekki eins ljúf, en á meðan eru ennþá nokkur gistipláss laus hér á Dalvík og allir þeir sem vilja komast í blíðuna til okkar velkomnir á meðan húsrúm leyfir.
Spá okkar byggist nú að mestu á nýju tungli sem kom upp í austri en líklega hefur veðurmildi hjá okkur hérna á Dalvíkinni undanfarið orðið til þess að félagar hafa sofið fast og vel og muna því enga drauma til að byggja á undanfarin mánuð.“
Fangið fáum fullt af fönn
Fagra framtíð sjáum
Sigrast sól á myrksins önn
Sól og sælu þráum.
Höf. Bjór.
Hylur leiðir hríðin dimm.
Geislar klárir greikka stig
glaður tárast dagur.
Hefir báran hægt um sig
himinn blár og fagur.
Þorri um fjall og flata gljá
feldinn mjallar breiðir.
Úti er falleg sjón að sjá
sól um allar leiðir.
Höf. Ólína Jónasdóttir
Akureyri 1946.