Dagur sjúkrahússins á Glerártorgi á laugardaginn – Margt í boði og Hollvinasamtök SAk blása til stórsóknar

Glaðbeittir í aðgerð.  Mynd aðsend.
Glaðbeittir í aðgerð. Mynd aðsend.

Hollvinasamtök Sjúkrahússins á Akureyri (SAk) ásamt starfsfólki sjúkrahússins standa fyrir hátíð á Glerártorgi laugardaginn 10. desember nk. milli kl. 14:00 og 16:00. Slík hátíð á Glerártorgi hefur verið árviss viðburður en féll niður sl. tvö ár vegna COVID-faraldursins.

 Starfsfólk sjúkrahússins stendur fyrir mælingu á blóðþrýstingi, súrefnismettun og púlsi. Félagsmenn í hollvinasamtökunum kynna Hollvinasamtök Sjúkrahússins á Akureyri og skrá nýja félaga. Þá býðst smáfólkinu að koma með uppáhaldsleikfangið sitt í læknisskoðun. Að sjálfsögðu verður líka bangsa- og dúkkuhorn á staðnum.

 Safnað fyrir hryggsjá

Hollvinasamtök SAk fagna 10 ára afmæli sínu á næsta ári. Af því tilefni – og mjög í anda stofnanda samtakanna, Stefáns heitins Gunnlaugssonar – hefur verið ákveðið að ráðast í stærsta söfnunarátak samtakanna frá upphafi. Stefnan hefur verið sett á að kaupa tæki sem kallað er Brain-lab, en hefur hlotið íslenska vinnuheitið Hryggsjá. Það kostar um 40 milljónir króna með vsk. Stjórnin undirbýr því ærið verkefni og er byrjuð að safna framlögum til kaupanna.

Hryggsjá er leiðsögutæki fyrir stórar bakaðgerðir á hryggsúlunni. Tækið gerir aðgerðir nákvæmari, fljótlegri og öruggari fyrir bæði sjúkling og starfsfólk. Takist Hollvinum að safna fyrir slíku tæki verður aðstaða til hryggjaraðgerða á SAk sú besta sem völ er á hér á landi og fyllilega sambærileg við það sem best gerist á stærstu sjúkrahúsum erlendis.

 Almannaheillafélag

Hollvinasamtök SAk eru almannaheillafélag og framlög til Hollvinasamtaka SAk verða því eftirleiðis frádráttarbær frá skattstofni gefenda, hvort sem um er að ræða fyrirtæki eða einstaklinga.

Hollvinir SAk hvetja sem flesta til að leggja leið sína á Glerártorg á laugardaginn og taka virkan þátt í dagskránni.

Nýjast