„Dagur gleði, ástar og kærleika“

Áætlað er að nýr íbúðakjarni við Stóragarð á Húsavík fyrir fólk með fatlanir  verði tilbúinn 1.desember næst komandi. Um er að ræða íbúðakjarna með sex íbúðum auk sameiginlegs rýmis og starfsmannaaðstöðu. 

Það er Trésmiðjan Rein sem er aðalverktaki framkvæmdanna fyrir Norðurþing. Fyrsta skóflustungan var tekin síðast liðið  sumar og hafa framkvæmdir gegnið fljótt og vel fyrir sig.

Hróðný Lund, félagsmálastjóri Norðurþings segir í samtali við Vikublaðið að áætlanir standi og tekið verði við húsinu 1. desember nk. „Verið er að kaupa húsgögn inn í sameiginlegt rými og klára að leggja lokahönd á íbúðirnar sem verða glæsilegar,“ segir Hróðný og bætir við að búið sé að ráðstafa öllum íbúðunum enda sé þörfin eftir úrræðinu mikil.

 Löngu tímabært

 „Svona íbúðarkjarni er stórt framfaraskref í búsetuúrræðum fyrir fólk með langvarandi stuðningsþarfir. Þetta er orðið löngu tímabært og búið að bíða lengi eftir slíku úrræði. Norðurþingi er sómi að slíku framfararskerfi,“ útskýrir Hróðný og bætir við að með íbúðakjarnanum uppfylli sveitarfélagið lög um búsetuúrræði fyrir þennan hóp fólks.

„Loksins erum við að uppfylla lögin um búsetuúrræði sem mætir þörfum og þjónustu við íbúa.  Með þessum hætti erum við að auka  lífsgæði og vellíðan íbúa sem sómi er að. Ég hlakka mikið til að upplifa þennan dag þegar íbúar fá lyklana að sínum íbúðum. Það verður dagur gleði ástar og kærleika sem á vel við svona rétt fyrir jólin,“ segir Hróðný að lokum.

Nýjast