Vilja Hjallastefnugrunnskóla á Akureyri
Tæplega 90% þeirra sem svöruðu könnun á vegum foreldrafélags leikskólans Hólmasólar á Akureyri hafa áhuga á að senda börn sín í grunnskóla rekinn af Hjallastefnunni en enginn slíkur er starfandi á Akureyri. Foreldrafélag leikskólans Hólmasólar stóð fyrir könnunni sem var netkönnnun, en Hólmasól er rekinn af Hjallastefnunni
Spurningin sem send var til foreldranna var svohljóðandi: ?Vilt þú eiga þess kost að geta valið Hjallastefnugrunnskóla á Akureyri fyrir skólagöngu barnsins þíns?" Af þeim 159 foreldrum sem svöruðu svöruðu 141 játandi, 9 neitandi og 9 mynduðu sér ekki skoðun.
Könnunin var send út á 226 foreldra og svöruðu 159 könnuninni. Þetta gerir 70,3% svarhlutfall. Taka þarf þó tillit til þess að í einhverjum tilvika svöruðu báðir foreldrar barns könnuninni þó að beðið hefði verið um að einungis annað gerði það.
Í kjölfar niðurstöðu könnunarinnar var stofnuð þriggja manna nefnd á vegum foreldrafélags Hómasólar sem ætlar að setja sig í samband við bæjaryfirvöld sem og forsvarsmenn Hjallastefnunnar og kanna hvort að það sé raunverulegur möguleiki á því að Hjallastefnugrunnskóli geti tekið til starfa á Akureyri í náinni framtíð.