Tónleikar í kvöld til styrktar Aflinu

Styrktartónleikar Aflsins verða haldnir á Græna hattinum á Akureyri í kvöld.

Það líður að 12. starfsári Aflsins en samtökin voru stofnuð í apríl 2002 í framhaldi af tilraunaverkefni Stígamóta sem sýndi fram á mikla þörf fyrir ráðgjöf til þolenda kynferðis- og heimilisofbeldis. Því miður hefur starfsemin vaxið og dafnað enda virðist ekkert lát á slíku ofbeldi. Hjá Aflinu sækja þolendur ofbeldis aðstoð og ráðgjöf til að vinna úr afleiðingum ofbeldis en einnig kemur Aflið að forvarnarfræðslu og fleiru. Kynnar kvöldsins verða Sr. Hildur Eir Bolladóttir og Pétur Guðjónsson. Þar gefst tækifæri til að slá tvær flugur í einu höggi með því annars vegar að njóta brots af því besta í Akureyrskri tónlist og styðja við starfsemi Aflsins.

Þeir sem koma fram verða Heimir Ingimarsson sem mætir með gítarinn, Jónína Björt Gunnarsdóttir,
Óskar Pétursson, Valmar Väljaots, Jokka og Hermann Arason, Linda Guðmundsdóttir og Snorri Guðvarðason og síðast en ekki síst Hvanndalsbræður í öllu sínu veldi. Auk þessa má eiga von á óvæntum uppákomum.

Einn af mikilvægum þáttum í starfsemi Aflsins er hópastarf en það fer fram á þann hátt að þolendur ofbeldis koma saman í litlum hópum ásamt ráðgjafa og unnið er úr afleiðingum ofbeldis með jafningjastuðningi. Fjáröflun í gegnum árlega styrktartónleika er lykilþáttur í að geta haldið þessu starfi gangandi.

Tónhleikarnir hefjast klukkan 20:30

Aðgangseyrir er 2.000 kr. og forsala miða er í Eymundsson

 

Nýjast