Þegar Kristján Möller fékk kæruleysissprautu
Greinilegt er að Össur Skarphéðinsson fyrrverandi utanríkisráðherra og Kristján L. Möller þingmaður Samfylkingarinnar í Norðausturkjördæmi eru nánir vinir, það kemur skýrt fram í bók Össurar, Ári drekans. Össur segir meðal annars frá því þegar hann hringdi í Kristján, þegar staðan á stjórnarheimilinu var vægast sagt tvísýn:
Í hádeginu á ég ógleymanlegt samtal við Kristján L. Möller. Ég hef nuddað í honum að nú sé kominn tími á að hleypa Rammanum út úr þingflokknum. Minn góði vinur er óvanalega reifur í símanum.
Hann tekur mér fagnandi og hlær dátt og innilega að öllu. Ég set á grafalvarlega tölu um að staðan sé svo þung að ríkisstjórnin lifi tæpast næstu vikur nema hann losi skrúfuna af Rammanum. Kristján er dillandi kátur og sér engin vandamál við Rammann.
Ég bæti við að tóri ríkisstjórnin verði hann þjóðhetja í kjördæminu fyrir Vaðlaheiðargöng, Norðfjarðargöng og stóriðju á Húsavík. Það jafngildi því að koma heim í hérað með gull, silfur og brons. Gull, silfur og brons það er bara alslemm, segir hann spriklandi kátur.
Svona góðu boði sé erfitt að hafna hvað þá frá svona dásamlegum félaga. Allra síst á svona yndislegum degi! Það læðist að mér illur grunur og ég spyr hvort hann sé á bar í hádeginu. Miklu betra, segir Möller, og tjáir mér að hann sé að koma úr sérlega skemmtilegri magarannsókn.
Það kemur í ljós að á spítalanum var kónginum að norðan gefin risastór kæruleysissprauta sem er enn að virka. Þegar ég segi Jóhönnu Sigurðardóttur af samtalinu telur hún að það myndi bæta landsstjórnina ef Kristján L. Möller fengi kæruleysissprautu á hverjum degi.
Þegar hann er rukkaður um Rammann um kvöldið man Kristján lítið af þessu samtali og við hlæjum rosalega.