Stéttarfélögin styrkja Jólaaðstoðina
Sjö stéttarfélög í Eyjafirði afhentu í dag Jólaaðstoðinni á Eyjafjarðarsvæðinu styrk að upphæð 1.920.000 krónur.
Þetta er í annað sinn sem þessi samtök taka höndum saman fyrir jólin og veita þeim aðstoð sem þurfa. Í fyrra var ákveðið að vinna saman að jólaaðstoðinni og gafst það samstarf það vel að ákveðið var að endurtaka leikinn og í lok október var undirritaður samstarfssamningur til næstu þriggja ára. Í fyrra var úthlutað 303 styrkjum í formi greiðslukorta sem hægt var að versla fyrir í ákveðnum verslunum.
Jólaaðstoðin hófst 18. nóvember sl. með viðtölum, en allir sem sækja um aðstoð þurfa að panta tíma í viðtal. Viðkomandi þarf að hringja í síma 537 9050 milli kl. 11.00 og 13.00 á mánudegi, þriðjudegi eða miðvikudegi fyrir 5. desember nk.
Félögin sjö sem færðu nefndinni styrk eru Eining-Iðja, Byggiðn Félag byggingamanna, Félag málmiðnaðarmanna Akureyri, Félag verslunar- og skrifstofufólks Akureyri og nágrenni, Sjómannafélag Eyjafjarðar, Sjómannafélag Ólafsfjarðar og Berg félag stjórnenda.
Ef einhverjir fleiri vilja leggja átakinu lið þá er hægt að leggja inn á reikning verkefnisins, (0302-13-175063, kt. 460577-0209) Munið, margt smátt gerir eitt stórt.
Á myndinni eru forsvarsmenn nokkurra stéttarfélaga sem veittu styrkinn og félaganna fjögurra sem hann fengu.