Ráðstefna um móðurmálið

Nemendur Síðuskóla
Nemendur Síðuskóla

Málræktarþing unga fólksins á Akureyri var haldið í hátíðarsal Háskólans á Akureyri í gær, en að því stóðu Íslensk málnefnd og Mjólkursamsalan. Þingið sóttu allir 10. bekkingar úr sjö grunnskólum á Akureyri og umfjöllunarefnið var móðurmálið, í tilefni af degi íslenskrar tungu, sem er í dag, laugardag.

Allir skólarnir sjö voru með dagskráratriði á þinginu - í formi myndbanda, söngs og upplesturs. Illugi Gunnarsson, mennta- og menningarmálaráðherra, hvatti 10. bekkinga til lesturs bóka, það gerði lífið skemmtilegra. Hann nefndi að hvað sem krakkarnir kæmu til með að taka sér fyrir hendur í framtíðinni skipti öllu máli að hafa gott vald á tungumálinu. 

Kristín Halldórsdóttir, mjólkurbússtjóri MS á Akureyri, sagði að á tyllidögum væri gjarnan sagt að íslenskan væri fjöregg íslenskrar menningar og það væri nokkuð til í því. "Það er langt í frá sjálfgefið að fámenn eyþjóð í Norður-Atlantshafi eigi sérstakt tungumál og það er heldur ekki sjálfgefið að okkur auðnist í ölduróti mikilla og stöðugra þjóðfélagsbreytinga að varðveita það.

Við hjá Mjólkursamsölunni höfum frá því að dagur íslenskrar tungu var fyrst haldinn hátíðlegur árið 1996 lagt okkar af mörkum við að varðveita og efla íslenska tungu undir yfirskriftinni „Íslenska er okkar mál“. Þetta höfum við meðal annars gert með málfarsábendingum á mjólkurfernum, við höfum látið gera veggspjöld með okkar helstu skáldum og rithöfundum og við höfum staðið fyrir nýyrðasamkeppni, svo eitthvað sé nefnt. Síðast en ekki síst hefur Mjólkursamsalan með auglýsingum í blöðum og ljósvakamiðlum hvatt til árvekni og samstöðu allra landsmanna um að standa vörð um móðurmálið.

Að gæta hennar gildir hér og nú,
það gerir enginn nema ég og þú.

Þessar ljóðlínur eftir Þórarin Eldjárn syngur Alexandra Gunnlaugsdóttir um íslenska tungu í  sjónvarpsauglýsingu Mjólkursamsölunnar. Ljóðið samdi Þórarinn Eldjárn sérstaklega fyrir fyrirtækið árið 1994 í tilefni af samstarfi MS og Íslenskrar málnefndar um varðveislu móðurmálsins. Auglýsingin hefur verið sýnd árlega á tyllidögum í tæp tæp tuttugu ár og er sígild, rétt eins og það viðfangsefni að standa vörð um móðurmálið," sagði Kristín.

 

Nýjast