Pabbi landsliðsfyrirliðans bjartsýnn
Ég er ósköp rólegur og þokkalega bjartsýnn fyrir leikinn, segir Gunnar M. Gunnarsson, faðir Arons Einars landsliðsfyrirliða í knattspyrnu. Í kvöld fer fram stærsti leikur landsliðsins til þessa er liðið tekur á móti Króatíu í fyrri leiknum í umspili um sæti á HM í Brasilíu. Gunnar lagði af stað frá Akureyri í morgun til að fylgjast með stráknum í kvöld fyrir sunnan.
Ég er yfirleitt rólegur fyrir leiki en verri þegar ég er kominn á staðinn. Ég tel okkur eiga góða möguleika og spái leiknum 2-1. Það væri gaman að sjá Aron skora, segir Gunnar. Hann segist ekki vera farinn að velta þeim möguleika fyrir sér að fara til Brasilíu næsta sumar.
Það er ansi dýrt að ferðast þangað en eflaust myndi maður íhuga það. En fyrst verðum við að leggja Króatana að velli og ég er fullur bjartsýni. Þetta er hörkulið sem við eigum, segir Gunnar M. Gunnarssson, stoltur faðir landsliðsfyrirliðans.