Óheppileg framkvæmdagleði á Akureyri á uppgangstímum
Geir Kristinn Aðalsteinsson forseti bæjarstjórnar Akureyrar segir að rekstur Hofs, íþróttasvæðis Þórs og íþróttahúss Giljaskóla kosti samtals um 500 milljónir króna á ári. Þetta kemur fram í grein Geirs Kristins í Vikudegi í dag.
Ef við byrjum á að velta fyrir okkur stöðu mála þegar ný bæjarstjórn tók við stjórntaumunum árið 2010 þá blasir það við að byggð voru stór og mikil mannvirki á síðasta kjörtímabili. Þessi mannvirki komu svo öll af fullum þunga inn í rekstur bæjarins á þessu kjörtímabili. Þau helstu eru Menningarhúsið Hof, sem kostaði um 3,5 milljarða króna, Íþróttasvæði Þórs, sem kostaði um 1 milljarð og Íþróttahús Giljaskóla, sem einnig kostaði um 1 milljarð.
Öll eru þessi mannvirki af hinu góða fyrir bæjarfélagið en slík framkvæmdagleði á uppgangstímum í þjóðfélaginu tel ég óheppilega.
Á þeim tíma sem þessar ákvarðanir eru teknar var góðæri í þjóðfélaginu og þá eiga sveitarfélög að halda að sér höndum í framkvæmdum en geta svo farið af stað með stærri framkvæmdir þegar skóinn kreppir, sem sveiflujafnandi aðgerðir.
Niðurstaðan er svo sú að aðeins þessi þrjú mannvirki kalla á meira en 500 milljónir króna árlega í rekstrarkostnaði, skrifar Geir Kristinn. Hann segir að með góðum rökum megi halda því fram að skuldir Akureyrarbæjar hafi í raun lækkað um meira en 1,5 milljarð króna á kjörtímabilinu.