Miðaldra framstæður karlmaður lætur drauminn rætast

Ármann Einarsson tónlistarmaður á Akureyri átti sér þann draum að dansa samtímadans. Draumurinn rættist í maí, er hann dansaði fyrir fullum sal í Hofi á Akureyri. Hann óraði hins vegar ekki fyrir því að í kjölfarið yrði honum boðið að sýna dansinn víða um heim. Fulltrúar fjölmargra þjóða hafa sett sig í samband við Ármann, sem þessa dagana skoðar tilboð víðs vegar að úr heiminum.

„ Unnusta Péturs sonar míns, Brogan Davison, er bresk og lærður danshöfundur. Einn daginn sagði ég henni frá þessum draumi mínum.  Þetta var svo ekkert rætt frekar, fyrr en nokkrum mánuðum síðar. Þá voru Brogan og Pétur komin til Berlínar, þar sem þau störfuðu. Brogan hafði ekki gleymt hugmyndinni um dansinn, þannig að ég sendi henni einfaldlega formlega beiðni um að aðstoða mig. Og til að gera langa sögu stutta, þá fóru hjólin að snúast nokkuð hratt eftir þetta formlega bréf mitt.“

Þetta hefur sem sagt svínvirkað?

„Já, já, það má segja það. Eftir sýningar hérna fyrir norðan  urðum við vör við áhuga frá erlendum listahátíðum. Og við þurftum ekki að bíða lengi, fljótlega var haft samband við okkur frá nokkrum löndum. Við þáðum boð um að sýna dansverkið í Ástralíu, við förum þangað í mars á næsta ári.“

Fleiri lönd sem bíða?

„Það er búið að ganga frá nokkrum sýningum í Danmörku, Þýskalandi og mér skilst að búið sé að semja um sýningar í Kanada.“

Þannig að heimurinn bíður?

„Ég segi það nú kannski ekki, en jú, jú, það eru fleiri lönd sem vilja gjarnan fá okkur til sín. Núna er verið að tala við Ítalíu og nokkur önnur lönd eru til skoðunar. Áhuginn virðist vera víða og hlutirnir gerast nokkuð hratt.

Útsendarar til Akureyrar

„Við verðum með tvær sýningar í Rýminu hérna á Akureyri í desember og mér skilst að útsendarar frá þremur löndum séu væntanlegir til bæjarins, sem er bara ánægjulegt. Auðvitað hugsa ég um framtíðina og ég vil gjarnan sýna dansverkið sem víðast. Framstæður miðaldra karlmaður getur með öðrum orðum gert ýmislegt, bara ef hann lætur drauma sína rætast.“

Ítarlega er rætt við Ármann í opnuviðtali í prentútgáfu Vikudags

Nýjast